Efnahagsmál - 

16. apríl 2011

Yfirlýsing SA: Vilja stríð þegar friður er í boði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Yfirlýsing SA: Vilja stríð þegar friður er í boði

Á undanförnum mánuðum hafa Samtök atvinnulífsins barist fyrir því að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni sem felst í því að auka fjárfestingar, skapa störf, minnka atvinnuleysi og auka tekjur. Samhliða þessu yrðu gerðir kjarasamningar til þriggja ára til þess að tryggja vinnufrið, kaupmátt og eyða óvissu.

Á undanförnum mánuðum hafa Samtök atvinnulífsins barist fyrir því að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni sem felst í því að auka fjárfestingar, skapa störf, minnka atvinnuleysi og auka tekjur. Samhliða þessu yrðu gerðir kjarasamningar til þriggja ára til þess að tryggja vinnufrið, kaupmátt og eyða óvissu. 

Í gær stöðvuðust viðræður á vinnumarkaðnum um atvinnuleiðina vegna þess að ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að taka á lykilmálum. Sátt um sjávarútveg, eina helstu útflutningsgrein landsmanna og kjarnagrein byggðar víða um land, er nauðsynleg til þess að fjárfestingar hefjist í greininni á ný og óvissu um rekstrarforsendur fyrirækjanna sé eytt. Innan SA og aðildarfélaga þeirra er full samstaða um þýðingu sjávarútvegsins og nauðsyn sáttar um hann. Ríkisstjórnin hefur hingað til lítt sem ekkert vilja ræða við forsvarsmenn sjávarútvegsins um starfsskilyrði greinarinnar.

Sprengju var varpað inn í viðræður aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld með frumvarpi um 30 ára nýtingartíma orkufyrirtækja á jarðvarma sem hækkar kostnað og þar með orkuverð án þess að samfélagið hafi af því nokkurn hag. Áform ríkisstjórnarinnar um orkuuppbyggingu ganga of hægt þótt vissulega hafi viðhorf hennar verið að breytast til réttrar áttar. Mikilvægum samgönguframkvæmdum á Suðvesturlandi hefur verið klúðrað þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lofað skjótum framgangi þeirra í stöðugleikasáttmálanum frá júní 2009.

Þegar viðræðum um atvinnuleiðina lauk var hafist handa um gera samkomulag til skemmri tíma með 50 þúsund króna eingreiðslu auk þriggja 16.700 króna viðbótargreiðslna yfir sumarmánuðina ef ekki tækist að koma atvinnuleiðinni í gegn.

Samtök atvinnulífsins vildu útfæra skammtímasamkomulag þannig að aðilar héldu áfram vinnu við atvinnuleiðina og reyndu til þrautar að komast á þá braut. Í því skyni var nauðsynlegt að fram kæmi sameiginlegur rökstuðningur fyrir samkomulaginu sem gæti hjálpað til við að ná settu marki. Alþýðusambandið hafnaði algjörlega bæði áframhaldandi vinnu við atvinnuleiðina og sameiginlegum rökstuðningi jafnvel þótt sérstaklega væri óskað eftir tillögu frá sambandinu um hvernig slíkur rökstuðningur mætti vera.

Leið Alþýðusambandins vegna skammtímasamningsins var sú að ljúka honum í flýti og hefja svo miklar deilur um hverjum væri um að kenna að þriggja ára samningur með atvinnuleiðinni hefði ekki náðst. Slíkt hefði aukið enn á upplausn og óvissu.  Ríkisstjórnin hefur verið söm við sig og vill viðhalda ófriði um sjávarútveg, orkumál og aðra uppbyggingu þrátt fyrir að friður sé í boði.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig fram um að ná vinnufriði á grundvelli atvinnuleiðarinnar sem er eina raunhæfa leiðin út úr kreppunni. Ennþá er það verkefni framundan til að leysa og Samtök atvinnulífsins vilja ekki gefast upp við að ná því fram sem er landi og þjóð fyrir bestu.

Samtök atvinnulífsins