Efnahagsmál - 

13. Desember 2001

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags SA og ASÍ

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags SA og ASÍ

Ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

Ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:

13/12/2001

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags
Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins

1. Stöðugleiki í efnahagsmálum
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem meðal annars er lögð til grundvallar í fjárlögum ársins 2002 miðar að því að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum, styrkja undirstöður atvinnulífsins og stuðla að bættum lífskjörum. Mikilvægt er að þessi sjónarmið séu einnig höfð að leiðarljósi við ákvarðanir í launa- og verðlagsmálum. Ríkisstjórnin lýsir stuðningi við þau markmið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð samkomulagi um.

2. Aðhald í ríkisfjármálum
Ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Í fjárlögum  fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir sama afgangi og ákveðinn var í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir að staða efnahagsmála hafi heldur færst til verri vegar að undanförnu. Með þessari ákvörðun eru send afar skýr skilaboð til allra aðila um að meginmarkmið stjórnvalda í efnahagsmálum nái fram að ganga. Áform ríkisstjórnarinnar um sölu ríkisfyrirtækja, uppbyggingu stóriðju og fyrirhugaðar breytingar á skattalegu umhverfi einstaklinga og atvinnulífs styðja þessi markmið.

3. Lánamál ríkissjóðs
 Stefnan í lánamálum ríkissjóðs tekur einkum mið af almennri þróun efnahagsmála, og mun taka tillit til markmiða samkomulags aðila vinnumarkaðarins, og stöðunni á innlendum lánamarkaði.  Þetta getur falið í sér breytingar á lánasamsetningu ríkissjóðs án þess að um aukningu heildarskulda verði að ræða.  Ríkissjóður hefur á þessu ári aukið lántökur sínar á erlendum markaði í því skyni að styðja við gengi krónunnar og hamla gegn verðbólgu.  Á innlendum lánamarkaði verður áfram stefnt að því að styrkja vaxtamyndun og auka skilvirkni markaðarins.  Á árinu 2002 verður þannig horft jafnt til áhrifa lánamála ríkissjóðs á gengi krónunnar og langtímaáhrifa á innlenda eftirspurn og verðbólgu.

4. Lækkun á grænmetisverði og verðkannanir
 Ríkisstjórnin mun í samræmi við tillögur nefndar fulltrúa stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og bænda beita sér fyrir því að tollar á grænmeti verði felldir niður á nokkrum mikilvægum afurðum og í öðrum tilvikum lækkaðir verulega. Í staðinn verða m.a. teknar upp beingreiðslur til framleiðenda. Þessar ráðstafanir munu leiða til verulegrar lækkunar á grænmetisverði til neytenda og stuðla að lækkun verðbólgu. Þessu verður fylgt eftir með öflugri upplýsingagjöf um verðmyndun á þessum vörum.
Verðkannanir ASÍ á öðrum sviðum eru einnig mikilvægar til þess að hafa áhrif á verðlag og verður  sú starfsemi efld.

5. Efling starfsfræðslu í atvinnulífinu
Ríkisstjórnin mun í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir endurskipulagningu á starfsfræðslu í atvinnulífinu. Markmiðið er bæði að auka framboð á starfsfræðslu og tryggja starfsemina. Samhliða því verði þessum málum komið í fastari skorður með skilvirkari samvinnu þeirra aðila sem sinna þessum verkefnum.

6. Lækkun tryggingagjalds
 Gangi verðlagsmarkmið kjarasamninganna eftir mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,27%, eða úr 6% í 5,73%, á árinu 2003. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að áfram verði ítrasta aðhalds gætt í ríkisfjármálum til þess að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum til frambúðar. Þessi markmið verða höfð að leiðarljósi við undirbúning og gerð fjárlaga fyrir árið 2003.

Samtök atvinnulífsins