Efnahagsmál - 

26. apríl 2011

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins telja að besti kosturinn fyrir þjóðina sé að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni og að sátt skapist um að atvinnulífið verði tekið úr handbremsu. Mikilvægur þáttur í atvinnuleiðinni er gerð kjarasamninga til þriggja ára sem SA vinna enn að því að gera. Samningaviðræðum hefur ekki verið slitið og hafa aðilar rætt saman þótt tímabundið hlé hafi verið gert á formlegum fundum fyrir páska.

Samtök atvinnulífsins telja að besti kosturinn fyrir þjóðina sé að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni og að sátt skapist um að atvinnulífið verði  tekið úr handbremsu. Mikilvægur þáttur í atvinnuleiðinni er gerð kjarasamninga til þriggja ára sem SA vinna enn að því að gera. Samningaviðræðum hefur ekki verið slitið og hafa aðilar rætt saman þótt tímabundið hlé hafi verið gert á formlegum fundum fyrir páska.

Það er mikilvægt að tryggja frið á vinnumarkaði næstu þrjú árin og skapa um leið þær aðstæður að kröftug uppsveifla geti hafist í atvinnulífinu. Aðeins þannig er hægt að skapa ný störf, tryggja fólki og fyrirtækjum auknar tekjur og minnka atvinnuleysi sem er í sögulegu hámarki.

Ekki er hægt að gera kjarasamning til þriggja ára án aðkomu stjórnvalda en það er á þeirra færi að ryðja burt hindrunum sem standa í vegi hagvaxtar, s.s. á sviði skattamála, orkunýtingar og stórframkvæmda. Stjórnvöld verða að skapa fyrirtækjum í landinu öruggara starfsumhverfi til þess stuðla að eðlilegri þróun þeirra og möguleikum á því að greiða hærri laun.

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að ná sátt um málefni sjávarútvegsins, bæði fyrir þjóðina og atvinnugreinina. Sjávarútvegurinn er ein meginstoða íslensks atvinnulífs og verður ekki skilin eftir í þeirri atvinnusókn sem nauðsynlegt er að hefja sem fyrst.

Samtök atvinnulífsins vilja fara ATVINNULEIÐINA út úr kreppunni. Um hana ríkir full samstaða í stjórn SA.

Samtök atvinnulífsins