Yfirlit kjarasamninga á Norðurlöndum 2009-2011: Hækkunum stillt í hóf

Í nýrri samantekt Samtaka atvinnulífsins á kjarasamningum sem gerðir hafa verið nýlega  á Norðurlöndum og ná til áranna 2009-2011 kemur í ljós að hækkun launa hefur verið stillt í hóf. Árleg hækkun launakostnaðar í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð er 0,6% þar sem hún er lægst og 2,3% þar sem hún er hæst. Algengt er að samið sé til 2-3 ára.

Samantekt SA má lesa hér að neðan:

Danmörk

Vorið 2010 voru gerðir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum í Danmörku. Samið var til tveggja ára og renna þeir út 2012. Launahækkunum er mjög stillt í hóf og eru rúmlega 1% fyrra árið og 1,5% hið síðara. Þegar allir kostnaðarþættir eru reiknaðir saman þá bætist u.þ.b. ½% við hvort árið þannig að launakostnaður hækkar um 1,5% fyrra árið og rúm 2% hið síðara.

Finnland

Í Finnlandi hefur áherslan flust frá miðlægum samningum til samninga fyrir atvinnugreinar á undanförnum árum. Atvinnugreinasamtökin leggja í vaxandi mæli áherslu á samninga í einstökum fyrirtækjum og á vinnustöðum. Samningarnir sem gerðir voru í ársbyrjun 2008 runnu sitt skeið vorið 2010. Í hluta samninganna voru ákvæði um að samið yrði sérstaklega um launabreytingar haustið 2009 og varð niðurstaða viðræðna 0,9% hækkun að það haust og voru hækkanir á milli 0,6% og 1,1% eftir samningssviðum. Vegna efnahagskreppunnar voru margir samningar framlengdir á þessum tíma þótt þeir hefðu ekki runnið sitt skeið. Á tímabilinu ágúst 2009 til júlí 2010 var gerður fjöldi samninga til rúmlega tveggja ára með hófstilltum launabreytingum, þ.e. 0,9% alls, en opnunarákvæðum á vissum tímapunktum þar sem unnt var að semja um launabreytingar.

Á tímabilinu frá ágúst 2009 til júlí 2010 voru gerðir 250 af 270 kjarasamningum á almenna markaðnum sem ná til tæplega 1,1 milljóna launamanna. Samningstíminn er að jafnaði í 2 ár og 3 mánuði en þeir lengstu eru á bilinu 3-4 ár. Vegna óvissu af völdum efnahagslægðarinnar voru launabreytingar einungis ákveðnar fyrir fyrsta árið en síðan áttu að eiga sér stað samningar um launabreytingar sem tækju gildi í október 2010 og október 2011. Í tækniiðnaðinum (teknologiindustrin) komust aðilar að samkomulagi um almenna hækkun um 1,0% sem tæki gildi í október 2010 og þar til viðbótar kæmi ½% sem vinnuveitandinn ákvæði hvernig yrði varið. Þetta 1% gengur undir nafninu akkeri og gengur í gegnum flesta samninga.

Noregur

Í Noregi eru jafnan gerðir kjarasamningar til tveggja ára. Árið 2009 voru launahækkanir sem rekja má til kjarasamninga 0,6% en þar við bættist 2,6% launaskrið úti á vinnustöðunum þannig að launahækkun ársins var 3,2%. Á árinu 2010 er áætlað að kjarasamningar hafi hækkað launakostnað um 1,5% að meðaltali.

Svíþjóð

Á fyrri hluta ársins 2010 voru gerðir 200 kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum sem tóku til 1,4 milljóna heilsársstarfa. Samningalotunni var þó ekki lokið síðastliðið haust og nokkrir samningar renna út á næsta ári. Mynstrið var þó það að samningaviðræður á mismunandi samningssviðum fóru samhliða fram. Gildistími samninganna er breytilegur, eða allt frá einu upp í þrjú ár en flestir (sem ná til 75% launamanna) ná yfir 22-24 mánuði. Launahækkanir eru afturhlaðnar í þeim skilningi að annað hvort er þriðjungur launahækkunar á fyrra árinu og tveir þriðju á því síðara eða fimmtungur á fyrra árinu og fjórir fimmtu á því síðara. Meðaltals launahækkun í samningunum er 3,5% á tveimur árum og dreifast eftir samningum á milli 2,2% - 5,1% þegar hækkanir hafa verið umreiknaðar m.v. tveggja ára samningstíma.

Kjarasamningar í Svíþjóð - kostnaðarhækkanir á tveimur árum.
SMELLIÐ Á MYNDINA TIL AÐ STÆKKA!


Samandregið:
Hækkun launakostnaðar í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndum 2009-2011.
Kjarasamningar á Norðurlöndum
SMELLIÐ Á MYNDINA TIL AÐ STÆKKA!