Yfirgnæfandi stuðningur þjóðarinnar við efnahagslegan stöðugleika

Tveir af hverjum þremur sem taka afstöðu styðja áherslu á efnahagslegan stöðugleika í stað þess að leggja áherslu á miklar launahækkanir í næstu kjarasamningum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir Samtök atvinnulífsins. Fleiri telja að svigrúm til launahækkana sé lítið en að það sé mikið. Tveggja ára kjarasamninga njóta mests stuðnings. Yfirgnæfandi meirihluti hefur áhyggjur af mikilli verðbólgu. Þá telur meirihluti að kaupmáttur launa sinna hafi minnkað þrátt fyrir óvenju mikla kaupmáttaraukningu á árinu.

Skiptar skoðanir um áherslur í komandi kjarasamningum

Aðspurðir um áherslur í komandi kjarasamningum var svarendum gefinn kostur á því að velja milli fimm kosta. 35% vilja að mest áhersla verði lögð á verulegar launahækkanir, 35% vilja að mest áhersla verði lögð á að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum, 15% vilja áherslu á styttingu vinnutíma, 12% á fjölgun starfa og 3% á annað.

undefined

Tveir af hverjum þremur sem taka afstöðu styðja stöðugleika

Rúmlega helmingur svarenda, 53% er hlynntur því að í komandi kjarasamningum verði meiri áhersla lögð á stöðugt verðlag og stöðugt gengi krónunnar en í stað þess lögð minni áhersla á launahækkanir. Fjórðungur, 26%, er andvígur slíkri stefnu en 21% tekur ekki afstöðu. Tveir af hverjum þremur sem taka afstöðu styðja áherslu á efnahagslegan stöðugleika.

undefined

Meirihluti þeirra sem tekur afstöðu telur lítið svigrúm til launahækkana

39% aðspurðra telja að frekar eða mjög lítið svigrúm sé til launahækkana en 33% telja að svigrúmið sé mikið eða mjög mikið. 28% taka ekki afstöðu. Af þeim sem taka afstöðu telja 54% að svigrúm sé frekar eða mjög lítið en 46% að það sé mikið eða mjög mikið. Töluvert fleiri á almennum vinnumarkaði telja svigrúm til launahækkana vera fyrir hendi en starfsmenn hjá hinu opinbera.

undefined

Áhyggjur af mikilli verðbólgu

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda hefur áhyggjur af mikilli verðbólgu. 63% svarenda hafa miklar áhyggjur af verðbólgu, 11% litlar áhyggjur en 26% taka ekki afstöðu. Af þeim sem taka afstöðu hafa 85% áhyggjur af mikilli verðbólgu.

Aðspurðir um væntingar til verðbólgu á næstu 6 mánuðum telja 5% að hún muni hjaðna, 23% að hún haldist óbreytt en 72% að hún muni aukast.

undefined

Flestum finnst kaupmáttur launa sinna hafa minnkað á síðastliðnum 12 mánuðum

62% aðspurðra telja að kaupmáttur launa sinna hafi minnkað á síðustu 12 mánuðum, 30% að hann hafi staðið í stað en 8% að hann hafi aukist. Þetta er mjög sérstök niðurstaða þar sem á spurningatímabilinu hafði launavísitala Hagstofunnar hækkað um 6,2%, verðbólgan verið 1,8% og vísitala kaupmáttar launa hækkað um 4,3%.

undefined
Fleiri telja atvinnuhorfur batni en versni

30% aðspurðra telja atvinnuhorfur fara batnandi, 49% að þær verði óbreyttar en 21% að þær versni.

Mestur stuðningur við tveggja ára samninga

Flestir aðspurðra, 39%, telja að gera eigi kjarasamninga til tveggja ára. Næst þar á eftir kemur samningur til eins árs sem 32% styðja, 17% styðja þriggja ára samninga og 75 fjögurra ára samninga. 3% styðja samninga með styttri gildistíma en eitt ár og 2% styðja lengri samninga en til fjögurra ára.

Svarendurnir

Vinnumarkaðsstaða þátttakenda í könnuninni skiptist þannig að 49% voru launþegar í fullu starfi, 11% voru launþegar í hlutastarfi, 15% voru á eftirlaunum eða öryrkjar, 10% voru atvinnurekendur eða sjálfstætt starfandi, 9% voru í námi, 3% voru atvinnulausir, 1% voru heimavinnandi og 1% í fæðingarorlofi.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins fólu Capacent að gera könnun meðal almennings á því hvað hann telur að helst eigi að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og viðhorfum til ýmissa kjara- og þjóðmála.

Könnunin gerð á tímabilinu 16. október til 3. nóvember 2014 og voru spurningar 10. Í úrtaki voru handahófsvaldir 2.898 einstaklingar, 18 ára og eldri. Af þeim svöruðu 1.733, þannig að svarhlutfall var 56%.