14. mars 2024

VR og LÍV semja um stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

VR og LÍV semja um stöðugleika

Langtímasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og VR/LÍV. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við langstærstan hluta félaga á almennum vinnumarkaði en sem kunnugt er kláruðust langtímasamningar við breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði og Fagfélögin á dögunum. VR/LÍV áttu veigamikinn þátt í mótun þeirrar launastefnu sem Stöðugleikasamningurinn byggir á. Með samningnum er komin á friðarskylda og ekki verður af boðuðum verkfalls- né verkbannsaðgerðum.

Tengt frétt

Stöðugleikasamningur í höfn
Lesa meira

„Það er afar ánægjulegt að semja um stöðugleika og ná sátt við eitt stærsta stéttarfélag á almennum vinnumarkaði í dag. Það skapar óneitanlega skriðþunga fyrir það sem á eftir kemur, þar sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir raunverulegu tækifæri til þess að ná efnahagslegum stöðugleika. Við sjáum samtakamáttinn þegar fjölmörg fyrirtæki stíga fram og sýna stuðning við markmið samninganna í verki og þegar ríki og sveitarfélög skuldbinda sig til þess að draga úr gjaldskrárhækkunum,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.

Stöðugleikasamningurinn styður fyrrnefnd markmið samningsaðila, að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Af því leiðir að kaupmáttur eykst, aukinn fyrirsjáanleiki verður í efnahagslífinu, dregið er úr verðbólguvæntingum og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs styrkist. Slíkur stöðugleiki er eitt stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á óvissutímum.

Samtaka um aukna hagsæld

Samningsaðilar hafa sett sér skýr markmið um að gera langtímakjarasamning sem stuðlar að minnkandi verðbólgu sem skapar skilyrði til þess að stýrivextir lækki. Forsendur kjarasamningsins taka mið af þeim markmiðum.

Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa. Standist forsendur kjarasamninga ekki ber forsendu- og launanefnd að taka ákvörðun um viðbragð.

„Núna er tíminn til þess að tileinka okkur nýja nálgun til þess að verja lífskjör og skapa skilyrði fyrir fjárfestingu í frekari verðmætasköpun.“ segir Sigríður Margrét.

---

Allt um samningana má finna hér á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins

Kynning á kjarasamningi SA og VR/LÍV

Samtök atvinnulífsins