Efnahagsmál - 

10. mars 2010

Vöxtur og velferð forgangsmál í Evrópu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vöxtur og velferð forgangsmál í Evrópu

Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, hafa nýverið sent frá sér stefnumörkun sem mælir með markvissum aðgerðum til að vinna Evrópu út úr þeirri djúpstæðu kreppu sem herjað hefur á flest ríki í álfunni á undanförnum tveimur árum. Stefnumörkunin er sett fram í hnitmiðaðri skýrslu þar sem greindar eru helstu áskoranir sem evrópskt atvinnulíf stendur frammi fyrir og mælt með skilvirkum lausnum til að snúa aftur á braut hagvaxtar og velferðar. Án kraftmikilla fyrirtækja sem skapa störf og verðmæti molnar fljótt undan velferðarkerfinu.

Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, hafa nýverið sent frá sér stefnumörkun sem mælir með markvissum aðgerðum til að vinna Evrópu út úr þeirri djúpstæðu kreppu sem herjað hefur á flest ríki í álfunni á undanförnum tveimur árum. Stefnumörkunin er sett fram í hnitmiðaðri skýrslu þar sem greindar eru helstu áskoranir sem evrópskt atvinnulíf stendur frammi fyrir og mælt með skilvirkum lausnum til að snúa aftur á braut hagvaxtar og velferðar. Án kraftmikilla fyrirtækja sem skapa störf og verðmæti molnar fljótt undan velferðarkerfinu.

Skýrslan, sem heitir á frummálinu GO FOR GROWTH, er bæði hugsuð sem leiðarljós fyrir atvinnulífið og mikilvægt viðmið fyrir stjórnmálaleiðtoga, ekki síst á vettvangi ESB og evrópska efnahagssvæðinu. Hefur skýrslan verið kynnt forseta ráðherraráðs ESB, forseta framkvæmdastjórnar og forseta Evrópuþingsins. Hafa þeir allir fagnað meginefni skýrslunnar og lýst því yfir að hún verði höfð til hliðsjónar við mörkun framtíðarstefnu ESB í efnahags- og atvinnumálum undir heitinu EU2020. Sú vinna stendur nú yfir og er stefnt að því að ljúka henni á fyrri helmingi þess árs.

Evrópusamtök atvinnulífsins beina kastljósi sínu að fimm meginverkefnum sem þjóðir Evrópu þurfa að kljást við á komandi árum og áratugum og finna lausnir á.

  • 1. Að komast út úr kreppunni og koma böndum á ríkisfjármálin. Fjölmörg ríki Evrópu hafa stundað ítrekaðan hallarekstur sem stenst ekki til lengdar og það hefur vakið upp spurningar um stöðugleika evrunnar.

  • 2. Horfast verður í augu við breytta aldurssamsetningu þjóða Evrópu. Fjölgun aldraðra kallar á breytingar. Auka verður framleiðni og leggja áherslu á betri menntun og meiri nýsköpun.

  • 3. Takast verður á við loftslagsbreytingar af festu. Evrópskur iðnaður hefur gegnt forystuhlutverki í mengunarvörnum og tækninýjungum, en það nægir ekki að Evrópuríkin ein varði veginn með því að draga úr losun kolefna. Í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verður að nást alþjóðlegt samkomulag til að tryggja raunverulegan árangur.

  • 4. Tryggja verður gagnsæi og jafnræði á orku- og afurðamörkuðum þannig að nýsköpun fái notið sín jafnt í Evrópu sem í öðrum heimshlutum.

  • 5. Velsæld almennings í Evrópu byggir að miklu leyti á viðskiptum við útlönd en atvinnulífið í Evrópu er í forystu á heimsvísu hvað varðar útflutning á vörum og þjónustu. Tryggja verður að evrópsku atvinnulífi takist að dafna áfram án hafta.

Eitt erfiðasta verkefnið sem bíður stjórnmálamanna í Evrópu er að rétta af fjárlagahalla einstakra ríkja en það yrði til þess að auka stöðugleika á helstu fjármálamörkuðum sem hafa verið í nokkru uppnámi samfellt í tvö ár. Ríkissjóðir hafa víða verið frekir til fjárins sem leitt hefur til ruðningsáhrifa vegna hækkandi markaðsvaxta sem standa atvinnulífinu til boða. Þá verður að draga úr regluverki og höftum sem eru ærin en einnig verður að tryggja að frjáls samkeppni dafni á helstu mörkuðum. Auk þess verður að takast á við aukna tilhneigingu til einangrunarhyggju og ríkisstyrkja en þetta eru hefðbundnir fylgifiskar niðursveiflu.

BUSINESSEUROPE hefur bent á þrjár meginleiðir til að glæða hagvöxt á nýjan leik í álfunni.

  • 1. Endurræsa verður innri markaðinn á EES-svæðinu, ryðja viðskiptahindrunum úr vegi, stórauka flæði þjónustuviðskipta milli landa og gera atvinnulífinu kleift að nýta sér viðskiptatækifæri um alla álfu án þess að flækjast í óþarfa höftum sem enn eru til staðar ótrúlega víða í opinberu regluverki.

  • 2. Vinna verður að því að forystumenn í Evrópu nái samkomulag við helstu viðskiptablokkir heims og þróunarríki um að hleypa lífi í viðræður innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar um viðskiptafrelsi á heimsvísu. Það er hagur fyrirtækja og neytenda um allan heim.

  • 3. Ríki innan ESB og á evrópska efnahagssvæðinu verða að auka framlag sitt til rannsókna, menntunar og nýsköpunar en þrátt fyrir háleit markmið Lissabonstefnunnar standa Evrópuríkin, Bandaríkjunum, Japan og fleirum talsvert að baki á þessu sviði.

Hér er aðeins stiklað á stóru en í stefnumótun BUSINESSEUROPE sem væntanlega verður höfð til eftirbreytni á veigamiklum sviðum innan ESB á næstu árum, eru settar fram ígrundaðar hugmyndir um hvernig megi takast á við þær áskoranir sem að ofan er lýst til að styrkja stoðir efnahagslífsins.

Það er lykilatriði að þessum stefnumálum verði hrundið í framkvæmd sem fyrst til að örva hagvöxt á nýjan leik í Evrópu en það er grunnurinn að þeirri velferð sem almenningur í álfunni hefur búið við til þessa.

Sjá nánar:

Stefnumörkun BUSINESSEUROPE: GO FOR GROWTH (PDF)

Horfa á kynningu Jürgen R. Thumann - forseta BUSINESSEUROPE

Samtök atvinnulífsins eru aðilar að BUSINESSEUROPE ásamt 39 öðrum samtökum vinnuveitenda og iðnaðar Í Evrópu. BUSINESSEUROPE er málsvari yfir 20 milljón fyrirtækja í 34 löndum af öllum stærðum og gerðum.

Vefur BUSINESSEUROPE

Samtök atvinnulífsins