Vinnumarkaður - 

03. október 2002

Vöxtur færist til jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vöxtur færist til jaðarsvæða höfuðborgarsvæðisins

Margt bendir til þess að framleiðslufyrirtæki muni í auknum mæli flytjast frá höfuðborgarsvæðinu til nærliggjandi sveitarfélaga á komandi árum. Hér er átt við staði eins og Akranes, Borgarbyggð, Árborg, Hveragerði og Reykjanesbæ, en þar eru verð á atvinnuhúsnæði og launakostnaður mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Þar njóta fyrirtæki meira rýmis og lægri leigu, en hafa samt góðan markaðsaðgang að höfuðborgarsvæðinu. Gróska í atvinnulífi mun aukast á þessum stöðum í kjölfarið. Þetta eru helstu niðurstöður lokaverkefnis Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur í hagfræði við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er um staðarval fyrirtækja og þróun atvinnulífs á suðvesturhorni landsins.

Margt bendir til þess að framleiðslufyrirtæki muni í auknum mæli flytjast frá höfuðborgarsvæðinu til nærliggjandi sveitarfélaga á komandi árum. Hér er átt við staði eins og Akranes, Borgarbyggð, Árborg, Hveragerði og Reykjanesbæ, en þar eru verð á atvinnuhúsnæði og launakostnaður mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Þar njóta fyrirtæki meira rýmis og lægri leigu, en hafa samt góðan markaðsaðgang að höfuðborgarsvæðinu. Gróska í atvinnulífi mun aukast á þessum stöðum í kjölfarið. Þetta eru helstu niðurstöður lokaverkefnis Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur í hagfræði við Háskóla Íslands, þar sem fjallað er um staðarval fyrirtækja og þróun atvinnulífs á suðvesturhorni landsins.

(Smellið á myndina)

Súliritið sýnir vegið meðaltalsverð á hvern m2 atvinnuhúsnæðis eftir stöðum á tímabilinu 1995-2001, byggt á gögnum frá Fasteignamati ríkisins. Fyrirvara má gera við raunverulegt framboð annars vegar, og við hugsanlegar breytingar á síðustu misserum hins vegar, t.d. á Akranesi eftir opnun Hvalfjarðarganga.

"Fráhrindikraftar" borgarsamfélagsins
Svonefndir fráhrindikraftar borgarsamfélagsins virðast vera farnir að gera vart við sig á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í ritgerðinni. Þeir koma til að mynda fram í háu fasteignaverði, háum launakostnaði og miklum umferðarþunga. Að mati höfundar eru því ýmis teikn á lofti um að hin nýju vaxtarsvæði framleiðslufyrirtækja verði í ca. 30-60 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu frekar en á því sjálfu. Ef flutningskostnaður og markaðsnánd eru tekin með í reikninginn bendir hins vegar margt til þess að staðsetning fyrirtækja sé hagkvæmari í nærliggjandi sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en á fjarlægari stöðum þar sem verð á atvinnuhúsnæði er enn lægra.

Jaðarhringur höfuðborgarsvæðisins

Myndin sýnir að atvinnuhúsnæði sem staðsett er í  45-74 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu er u.þ.b. helmingi ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu.  Sparnaður, í formi lægra fasteignaverðs, sem hlýst af því að staðsetja fyrirtæki þar er því gífurlegur.  Flutningskostnaður fyrirtækja sem staðsetja sig á þessum krans er e.t.v. hærri en þeirra fyrirtækja sem staðsetja sig á höfuðborgarsvæðinu en það fer þó allt eftir eðli framleiðslunnar.

Aðskilnaður framleiðslusviðs og höfuðstöðva
Að mati höfundar kann að vera kominn tími fyrir breytt fyrirkomulag á starfsemi margra framleiðslufyrirtækja. Aðskilnaður framleiðslusviðs og höfuðstöðva getur í mörgum tilfellum reynst hagkvæmari en samþætt starfsemi á einum stað. Í nærliggjandi sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins njóta framleiðslufyrirtæki góðs af lægri launakostnaði og lægra verði á atvinnuhúsnæði. Flutningur framleiðslusviðs slíkra fyrirtækja til þessara svæða gæti í mörgum tilfellum skilað sér í aukinni arðsemi. Vegna mikilla framfara í fjarskiptatækni og samgöngubótum getur aðskilnaður höfuðstöðva og framleiðslusviðs fyrirtækjanna reynst hagkvæmari en þegar öll starfsemin fer fram á sama stað. Kostnaður við vöru- og fólksflutninga hefur lækkað verulega á seinni árum og tilkoma Netsins og ýmissa fjarskiptatækja hefur lækkað samskiptakostnað fyrirtækjanna svo um munar.

Nánar um verkefnið
Ritgerðin er lokaverkefni Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur til BA-prófs í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið var unnið með stuðningi Samtaka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Leiðbeinandi var Ásgeir Jónsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í ritgerðinni er fjallað um staðarval fyrirtækja og þróun atvinnulífs á suðvesturhorni Íslands. Kenningar um hagkvæmustu staðsetningu fyrirtækja eru skoðaðar og bornar saman við íslenskar aðstæður. Nálægð við markaðinn og eftirspurnin á honum hefur samkvæmt þeim mest áhrif á staðarval fyrirtækja. Markaðsstaða, svæðisbundnir skattar, verð á atvinnuhúsnæði og launakostnaður hafa einnig mikil áhrif.

  <"o" ns="urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

 

Samtök atvinnulífsins