Vinnumarkaður - 

21. janúar 2009

Vottun jafnra launa mikilvæg

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vottun jafnra launa mikilvæg

Samtök atvinnulífsins vænta mikils af samstarfsverkefni SA, ASÍ og félags- og tryggingamálaráðuneytis um að fyrirtækjum og stofnunum verði gert kleift að fá vottun þess að jafnlaunastefna sé virk og í heiðri höfð á viðkomandi vinnustöðum. Þetta kom fram hjá Hrafnhildi Stefánsdóttur, yfirlögfræðingi SA, í umræðum á Jafnréttisþingi sem fór nýverið fram. Hrafnhildur lagði áherslu á að árangursríkar og hagkvæmar leiðir verði farnar á vinnumarkaði til að efla jafnrétti í stað þess að auka skrifræði og kostnað atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins vænta mikils af samstarfsverkefni SA, ASÍ og félags- og tryggingamálaráðuneytis um að fyrirtækjum og stofnunum verði gert kleift að fá vottun þess að jafnlaunastefna sé virk og í heiðri höfð á viðkomandi vinnustöðum. Þetta kom fram hjá Hrafnhildi Stefánsdóttur, yfirlögfræðingi SA, í umræðum á Jafnréttisþingi sem fór nýverið fram. Hrafnhildur lagði áherslu á að árangursríkar og hagkvæmar leiðir verði farnar á vinnumarkaði til að efla jafnrétti í stað þess að auka skrifræði og kostnað atvinnulífsins.

Hrafnhildur tók þátt í umræðum um hvernig tryggja mætti jafnrétti í uppbyggingu til framtíðar. Sagði hún að skýra stefnumörkun þyrfti þar sem lögð væri áhersla á að virkja hæfasta fólkið hverju sinni, jafnt konur sem karla. Lykillinn að árangursríkri uppbyggingu væri fjölbreytni og tók hún undir með Margréti Pálu Ólafsdóttur um að konur í hefðbundnum kvennastéttum þyrftu að fá fleiri tækifæri til að nýta þekkingu sína og reynslu, m.a. með því að taka að sér að veita og reka ákveðna þjónustu sem hið opinbera veitir í dag.

Þá vakti Hrafnhildur athygli á framsækinni löggjöf um fæðingar- og feðraorlof á Íslandi sem íslenskir atvinnurekendur hafi stutt dyggilega við - en evrópskir atvinnurekendur skilja jafnan lítið í því hvers vegna íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að senda karla og konur í langt "frí" á launum til að ala upp börn.

Sjá nánar:

Um Jafnréttisþing á vef félagsmálaráðuneytis

Samtök atvinnulífsins