Efnahagsmál - 

11. Mars 2011

Vonin ein dugir ekki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vonin ein dugir ekki

Landsframleiðsla síðustu tvö árin hefur dregist saman um tæp 11%. Einkaneysla hefur dregist verulega saman, fjárfestingar hafa hrunið, samneyslan minnkað lítillega og því miður eru horfurnar ekki vænlegar fyrir þetta ár. Sérstaklega er eftirtektarvert að verðmæti vöruútflutnings dróst saman á síðasta ári um 2% og er nánast óbreytt frá árinu 2008 og það þrátt fyrir að raungengi krónunnar sé nú lægra en verið hefur um áratuga skeið. Atvinnulausir í lok febrúar voru 14.873 talsins og í nýlegri könnun SA kom fram að atvinnuleysi hefur hrjáð þriðjung heimila í landinu frá bankahruninu.

Landsframleiðsla síðustu tvö árin hefur dregist saman um  tæp 11%. Einkaneysla hefur dregist verulega saman, fjárfestingar hafa hrunið, samneyslan minnkað lítillega og því miður eru horfurnar ekki vænlegar fyrir þetta ár. Sérstaklega er eftirtektarvert að verðmæti vöruútflutnings dróst saman á síðasta ári um 2% og er nánast óbreytt frá árinu 2008 og það þrátt fyrir að raungengi krónunnar sé nú lægra en verið hefur um áratuga skeið. Atvinnulausir í lok febrúar voru 14.873 talsins og í nýlegri könnun SA kom fram að atvinnuleysi hefur hrjáð þriðjung heimila í landinu frá bankahruninu.

Árið 2010 má kalla ár glataðra tækifæra og nú er að verða liðinn fyrsti ársfjórðungur ársins 2011 og engar breytingar til batnaðar fyrirsjáanlegar. Með sama áframhaldi má sjá fram á nauðsyn frekari samdráttar ríkisútgjalda. Ekki verður unnt að grípa til frekari skattahækkana sem einungis munu auka samdráttinn í hagkerfinu og gera stöðu fyrirtækja og almennings enn erfiðari en þegar er orðið.

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað fjallað um nauðsyn þess að ýta undir fjárfestingar í hagkerfinu með öllum ráðum. Fjárfestingar drógust saman um 8% á síðasta ári og námu einungis 13% af landsframleiðslu sem er sögulegt lágmark.  Til að ná viðunandi hagvexti til lengdar þyrfti að lágmarki að tvöfalda þetta hlutfall. Spár um fjárfestingu á næstu árum eru langt undir þessum mörkum.

Með því að örva fjárfestingar, sjá til þess að starfsskilyrði fyrirtækja séu trygg og stöðug og opna hagkerfið fyrir eðlilegum fjármagnshreyfingum geta stjórnvöld séð til þess að Ísland komist út úr kreppunni eins hratt og unnt er.

Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar á Alþingi skilji að það er atvinnulífið sem skapar störfin. Það eru fyrirtækin sem eru aflvél velferðarkerfisins og þegar starfsemi þeirra höktir þá hefur það bein áhrif á velferðarkerfið.

Verkefnin blasa við.

Það hefur komið fram að Ísland er það ríki sem leggur næstmestar kvaðir á beinar erlendar fjárfestingar og tekur þar sæti á milli Rússlands og Kína. Með því að létta af þessum kvöðum og stefna að afnámi gjaldeyrishafta sem fyrst er unnt að stíga skref til að opna hagkerfið að nýju.

Það er  á valdi stjórnvalda að ákveða að ráðast í virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Þau hafa einnig í hendi sér að tryggja að unnt verði að ráðast í stækkun Reykjanesvirkjunar. Með þessu er unnt að ryðja burt mikilvægum hindrunum í vegi þess að bygging álvers í Helguvík fari á fullt. Ríkisstjórnin hefur einnig í hendi sér að ákveða hvernig farið verður með nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslu. Á að leita samninga við þá sem leitað hafa eftir slíkum samningum eða á að leita eftir aðilum sem ekki hafa sýnt áhuga á að hefja þar starfsemi?

Það verður að tryggja öryggi og frið í starfsumhverfi sjávarútvegsins. Það verður að tryggja hagfellt umhverfi ferðaþjónustu. Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum stórum og smáum verða að búa við skattkerfi sem er samkeppnisfært við það sem best gerist. Með því að Ísland verði sem fyrst að nýju fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu hagkerfi geta fjárfestar að nýju öðlast trú á því að hér geti verið hagstætt að fjárfesta.

Á sama tíma vinna aðilar á vinnumarkaði að nýjum kjarasamningi sem ætlað er að gilda í allt að þremur árum að tilteknum skilyrðum uppfylltum þar sem stjórnvöld leika lykilhlutverk við að búa fyrirtækjum  rekstrarumhverfi sem gerir þeim kleift að hækka laun og skapa almenn skilyrði til kaupmáttaraukningar.

En ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Orðin ein duga ekki. Vonin ekki heldur. Það þarf meira en viljann.

Það þarf athafnir.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA:

Af vettvangi í mars 2011

Samtök atvinnulífsins