Efnahagsmál - 

21. janúar 2011

Vögguvísa yfir erlendum fjárfestingum og atvinnulífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vögguvísa yfir erlendum fjárfestingum og atvinnulífinu

Á síðasta ári var samdráttur á vinnumarkaði samkvæmt nýrri skýrslu Hagstofunnar. Það voru fleiri atvinnulausir en árið áður og vinnutíminn styttri. Um áramótin voru svo um 14.000 atvinnulausir samkvæmt Vinnumálastofnun. Fjárfestingar í hagkerfinu eru um þessar mundir minni en nokkru sinni síðustu 70 árin.

Á síðasta ári var samdráttur á vinnumarkaði samkvæmt nýrri skýrslu Hagstofunnar. Það voru fleiri atvinnulausir en árið áður og vinnutíminn styttri. Um áramótin voru svo um 14.000 atvinnulausir samkvæmt Vinnumálastofnun. Fjárfestingar í hagkerfinu eru um þessar mundir minni en nokkru sinni síðustu 70 árin.

Samtök atvinnulífsins leggja á það megináherslu nú þegar unnið er að gerð nýrra kjarasamninga að stjórnvöld grípi til allra nauðsynlegra ráðstafana til að skapa skilyrði fyrir nýjar fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsgreinum. Þar er átt við greinar sem nýta orku til framleiðslu sinnar, sjávarútveg, sprotafyrirtæki, ferðaþjónustu og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld greiði sem kostur er fyrir nýjum erlendum fjárfestingum sem eru nauðsynleg forsenda þess að hagvöxtur hér á landi verði það öflugur að dragi úr atvinnuleysinu, lífskjör batni og unnt verði að skapa aukna velferð. Með 5% árlegum hagvexti má vinna bug á atvinnuleysinu og endurheimta fyrri lífskjör á nokkrum árum.

Kanadíska fyrirtækið Magma hefur nú eignast nánast allt hlutafé í HS Orku. Erlendir fjárfestar hafa hingað til fengið arð af orkulindum Íslendinga í formi vaxta af lánum sem tekin hafa verið til byggingar virkjana en þau viðhorf eru útbreidd að óæskilegt sé að erlendir aðilar fái arð af áhættufé í orkuvinnslunni. Nú þegar erlendir lánamarkaðir eru lokaðir íslenskum orkufyrirtækjum og erlent áhættufé beinlínis forsenda þess að ráðist sé í orkuframkvæmdir eru slík viðhorf bæði úrelt og skaðleg fyrir það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað. Enginn hefur enda mótmælt því að erlendir aðilar bæði eigi og reki olíuborpalla komi til þess að slíkar orkulindir finnist á íslensku yfirráðasvæði.

Hver nefnd stjórnvalda á fætur annari hefur komist að því að fjárfestingin í HS Orku hafi að öllu verið samkvæmt lögum. Ekki er um það að ræða að HS Orka eigi orkulindirnar, þær eru eftir sem áður í eigu sveitarfélagana sem fá í sinn hlut árlegt umsamið gjald fyrir nýtinguna.

Það er þess vegna stórundarlegt svo ekki sé nú dýpra í árina tekið að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skuli á tröppum Stjórnarráðsins taka undir með þeim sem kyrja vögguvísur yfir atvinnulífinu og erlendri fjárfestingu.

Skorti ríkisstjórnina skilning á því að velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd verður einungis til með öflugu atvinnulífi í opnu hagkerfi, þar sem greitt er fyrir fjárfestingum innanlands með öllum tiltækum ráðum, er fyrst ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Samtök atvinnulífsins