Vinnumarkaður - 

28. Desember 2019

Voffi biður foreldra um hjálp

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Voffi biður foreldra um hjálp

VOFFI er viðamikil rannsókn á vegum Barnaspítala Hringsins á veikindum ungra barna og fjarvistum foreldra frá vinnu vegna veikindanna. Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að meta hvaða veikindi herja helst á ung börn, hve oft þau veikjast og hve margir vinnudagar eða námsdagar foreldra tapast vegna veikindanna.

VOFFI er viðamikil rannsókn á vegum Barnaspítala Hringsins á veikindum ungra barna og fjarvistum foreldra frá vinnu vegna veikindanna. Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að meta hvaða veikindi herja helst á ung börn, hve oft þau veikjast og hve margir vinnudagar eða námsdagar foreldra tapast vegna veikindanna.

Samtök atvinnulífsins styðja verkefnið og hvetja foreldra ungra barna til að taka þátt. VOFFI er metnaðarfullt verkefni sem gæti veitt samfélaginu dýrmætar upplýsingar því nú er lítið sem ekkert vitað um umfang fjarvista fólks frá vinnu vegna veikinda barna. VOFFI stendur fyrir Veikindi og fjarvistir fjölskyldna á Íslandi.

 Veikindi barna geti valdið miklu álagi á fjölskyldur á viðkvæmum tíma, þegar fólk er að hefja starfsferil sinn á vinnumarkaði og koma sér þaki yfir höfuðið.

Lítill rannsóknarhópur stendur að rannsókninni en í forsvari fyrir hana eru barnalæknarnir Valtýr Stefánsson Thors og Ásgeir Haraldsson. Veikindi ungra barna eru algeng. Ætla má að börn á aldrinum 1-5 ára smitist af umgangspestum 6-8 sinnum á ári. Augljóst er að slík veikindi bera með sér mikið álag á fjölskyldur. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þessu álagi og umfangi þess.

Í viðtali við Morgunblaðið í janúar á þessu ári sagði Ásgeir, sem er yfirlæknir, prófessor í barnalækningum og forstöðumaður fræðasviðs Barnaspítala Hringsins, að rannsakendurnir hafi hvergi rekist á eins ítarlega rannsókn á þessu sviði erlendis og þessa. Hér séu góðir möguleikar á að fá nákvæm svör vegna þess að foreldrar á Íslandi séu mjög jákvæðir fyrir verkefninu. Þátttakendur á fyrsta árinu voru um 3.000 en því fleiri sem taka þátt því betra.

Ásgeir sagði stuðning SA við verkefnið ánægjulegan. „Við höfum fundið fyrir því að beggja vegna borðsins á vinnumarkaði er jákvæður áhugi á rannsókninni og það er ánægjulegt að heyra af vilja til þess að fá sem gleggsta mynd af þessum þætti.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA sagði í samtali við Morgunblaðið mikilvægt að átta sig á stöðunni. Veikindi barna geti valdið miklu álagi á fjölskyldur á viðkvæmum tíma, þegar fólk er að hefja starfsferil sinn á vinnumarkaði og koma sér þaki yfir höfuðið. „Þetta er brýnt samfélagsverkefni en Ísland stendur öðrum norrænum löndum langt að baki þegar kemur að því að halda tölfræði yfir veikindi og fjarvistir frá vinnumarkaði. Þegar niðurstaða rannsóknarinnar liggur fyrir er svo hægt að velta því fyrir sér hvað er hægt að gera betur."

Halldór Benjamín Þorbergsson og Valtýr Stefánsson Thors þegar verkefnið var kynnt í byrjun ársins. 

Rannsóknin mun standa yfir í nokkur ár. Nýbökuðum foreldrum er boðin þátttaka í rannsókninni en einnig hægt er að skrá sig í rannsóknina hvenær sem er eftir fæðingu barnsins. Foreldrar allra barna sem fæðst hafa 1. janúar 2018 og síðar geta verið með.

Þátttakan felst í að svara stuttum rafrænum spurningalistum fjórum sinnum á ári um veikindi barna sinna. Hafi barnið ekki verið veikt undanfarna þrjá mánuði er spurningalistinn afar einfaldur. Í þeim tilfellum sem veikindi hafa komið upp er spurt stuttlega um eðli þeirra og fjarvistir foreldra frá skóla eða vinnu. Öll svör eru ópersónugreinanleg og er rannsóknin unnin með samþykki Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Hægt er að óska eftir skráningu í VOFFA á Facebook og með tölvupósti á voffi@landspitali.is.

Samtök atvinnulífsins