Efnahagsmál - 

10. nóvember 2006

Vísitala neysluverðs staðfestir kólnun á fasteignamarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vísitala neysluverðs staðfestir kólnun á fasteignamarkaði

Útreikningur vísitölu neysluverðs fyrir nóvember 2006 staðfestir að verðbólga fer hjaðnandi og er þess að vænta að sú þróun haldi áfram næstu mánuði. Hækkun fasteignaverðs hefur haft mikil áhrif til aukningar á verðbólgu undanfarin misseri, en nýjustu upplýsingar benda til þess að þar sé að verða breyting á. Á síðasta ári voru mánaðarlegar verðhækkanir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis oftast á bilinu 2-4%, en dregið hefur úr verðhækkunum undanfarna mánuði og verð lækkað annað hvort á einbýli eða fjölbýli undanfarna fjóra mánuði.

Útreikningur vísitölu neysluverðs fyrir nóvember 2006 staðfestir að verðbólga fer hjaðnandi og er þess að vænta að sú þróun haldi áfram næstu mánuði. Hækkun fasteignaverðs hefur haft mikil áhrif til aukningar á verðbólgu undanfarin misseri, en nýjustu upplýsingar benda til þess að þar sé að verða breyting á. Á síðasta ári voru mánaðarlegar verðhækkanir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis oftast á bilinu 2-4%, en dregið hefur úr verðhækkunum undanfarna mánuði og verð lækkað annað hvort á einbýli eða fjölbýli undanfarna fjóra mánuði.

Lækkun í nóvember

Hagstofan notar meðaltal síðustu þriggja mánaða, skv. upplýsingum Fasteignamats ríkisins, við útreikninga á verðbreytingum á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs. Nú í nóvembermánuði liggja því verðbreytingar á tímabilinu ágúst-október til grundvallar. Meðal þess sem vekur athygli í niðurstöðu á útreikningi vísitölunnar að þessu sinni er einmitt það að markaðsverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu (fjölbýli) lækkaði um 0,27% frá fyrra mánuði, en á móti vegur 0,08% hækkun í einbýli. Þegar einbýli og fjölbýli eru vegin saman nemur lækkun fasteignaverðs á höfurborgarsvæðinu 0,21%. Í ágúst sl. stóð markaðsverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu (fjölbýli) í stað frá fyrra mánuði, lækkaði um 0,09% í september en hækkaði á ný um 1% í október. Er þetta því öðru sinni sem markaðsverðið lækkar á skömmum tíma og talsvert meira en var í september. Markaðsverð fyrir einbýli lækkaði talsvert í ágúst-október en hækkar óverulega (0,08%) í þessari mælingu. Þótt ekki beri að draga sterkar ályktanir af mælingum einstakra mánaða og reynslan hafi sýnt nokkurt flökt, staðfestir heildarmyndin þó að verðhækkanir á húsnæði eru að baki og nokkrar líkur eru á verðhjöðnun á næstu mánuðum, sem stuðlar enn að því það dragi úr verðbólgu á næstunni. 

Smellið til að sjá stærri mynd

Markaðsverð íbúðarhúsnæðis - lítil

                                                                         Heimild: Hagstofa Íslands.

Eins og fram kemur á myndinni að ofan hefur dregið úr verðhækkunum undanfarna mánuði og verð lækkað annað hvort á einbýli eða fjölbýli undanfarna fjóra mánuði.

Samtök atvinnulífsins