Fréttir - 

08. september 2023

Virk samkeppni forsenda hagsældar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Virk samkeppni forsenda hagsældar

Mikilvægi virkrar og heilbrigðrar samkeppni í íslensku atvinnulífi er óumdeild - bæði fyrir neytendur og íslensk fyrirtæki, sem flest eru lítil og meðalstór. Samkeppniseftirlitið gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja virka samkeppni í viðskiptum, sem styður við hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Þeim markmiðum er best náð með því að sporna gegn hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðinum.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023 um ólögmætt samráð Samskipa og Eimskips, hefur eðli málsins samkvæmt vakið mikla athygli og umræðu. Rannsókn málsins hefur staðið í yfir áratug - frá árinu 2013 og leitt til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um að leggja 4,2 milljarða króna stjórnvaldssekt á Samskip. Tveimur árum áður hafði Eimskip samið við eftirlitið um að greiða einn og hálfan milljarð króna í sáttagreiðslu vegna sama máls.

Langur málsmeðferðartími hefur ekki einungis áhrif á þau fyrirtæki sem talin eru hafa brotið gegn samkeppnislögum, heldur einnig þá aðila á markaðnum sem hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum af meintum brotum. 

Mál sem tengjast markaðsráðandi stöðu félaga og ólögmætu samráði eru yfirleitt mjög umfangsmikil. Rannsókn þeirra er iðulega flókin og tekur langan tíma, sem getur verið afar íþyngjandi fyrir aðila máls. Langur málsmeðferðartími hefur ekki einungis áhrif á þau fyrirtæki sem talin eru hafa brotið gegn samkeppnislögum, heldur einnig þá aðila á markaðnum sem hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum af meintum brotum.

Samtök atvinnulífsins harma þau meintu brot sem birtast í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, enda á íslenskt atvinnulíf mikið, ef ekki allt, undir virkri samkeppni. Samtök atvinnulífsins leggja ávallt höfuðáherslu á að fyrirtæki fylgi lögum, reglum og viðhafi góða stjórnarhætti í hvívetna.

Samtök atvinnulífsins