Menntamál - 

06. Desember 2017

Vinnustaður er námsstaður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vinnustaður er námsstaður

Breytingar á vinnumarkaði, fjórða iðnbyltingin, stafræn bylting, framtíðarvinnumarkaður, vélmenni og gervigreind eru áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir. Móta þarf stefnu um hvernig mæta skal örum tæknibreytingum og horfum um að vélar muni vinna stóran hluta þeirra starfa sem fólk sinnir nú. Samfélagið og vinnumarkaðurinn hafa gengið í gegnum miklar og hraðar breytingar á undanförnum áratugum en hraði þeirra er nú meiri en áður hefur þekkst. Margir eiga erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum í yfirstandandi ölduróti umbreytinga og tækninýjunga.

Breytingar á vinnumarkaði, fjórða iðnbyltingin, stafræn bylting, framtíðarvinnumarkaður, vélmenni og gervigreind eru áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir. Móta þarf stefnu um hvernig mæta skal örum tæknibreytingum og horfum um að vélar muni vinna stóran hluta þeirra starfa sem fólk sinnir nú. Samfélagið og vinnumarkaðurinn hafa gengið í gegnum miklar og hraðar breytingar á undanförnum áratugum en hraði þeirra er nú meiri en áður hefur þekkst. Margir eiga erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum í yfirstandandi ölduróti umbreytinga og tækninýjunga.

Fyrirtæki þurfa að vera virk við sí- og endurmenntun starfsmanna sinna samhliða tæknibreytingum. 
Það tók símann 75 ár að ná til 50 milljóna notenda en Facebook 3,5 ár að ná til sama fjölda. Tölvuleikurinn Angry Birds náði til 50 milljón notenda á rúmum mánuði! 

Áhrif yfirstandandi breytinga á líf fólks eru að mestu ófyrirséð. Á skömmum tíma hafa orðið miklar breytingar á því hvaða hæfni og menntun telst nauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi. Ekki er langt síðan að mikilvægasta hæfnin tengdist grunnþörfum, s.s. matvælavinnslu og klæðagerð, en nú og í framtíðinni er þekking á ýmiss konar hugbúnaði mikilvægust.

Formlega skólakerfið getur ekki, og á alls ekki í flestum tilfellum, að þjálfa fólk til ákveðinna verka. Sú menntun á sér stað á vinnustöðum úti í atvinnulífinu. Fyrirtæki þurfa að vera virk við sí- og endurmenntun starfsmanna sinna samhliða tæknibreytingum. Menntun til ákveðinna starfa er þegar farin að flytjast inn í atvinnulífið – vinnustaðurinn á og þarf að vera námsstaður. Áherslan á vinnustaðinn sem námsstað dregur ekki úr mikilvægi formlega skólakerfisins. Í grunnskóla og að hluta í framhaldsskóla eiga nemendur að læra það sem tekur langan tíma og það sem ekki verður lagt undir mælistiku um hæfni á ákveðnum sviðum.

Endurmenntun á vinnustað hefur gjarnan það markmið að starfsmaður tileinki sér færni við að ná tökum á nýrri tækni eða verklagi en markmiðið í formlega skólakerfinu er víðtækara.

Fram undan eru spennandi tímar og yngri kynslóðir mæta nýjum áskorunum með opnum huga.
Þrátt fyrir hraða nútímans verður sumt ekki numið á hraðferð. Færni í tónlist, tungumálum og íþróttum verður aðeins náð með áralangri ástundun. Formlega skólakerfið þarf að undirbúa fólk fyrir síbreytilegan heim. Þeir eiginleikar sem vinnumarkaðurinn mun kalla eftir í framtíðinni eru framúrskarandi samskiptahæfni, hæfni til að takast á við breytingar og tileinka sér ný viðhorf og tækni, hæfileiki til að vinna með öðrum, sveigjanleiki og gagnrýnin hugsun.

Fram undan eru spennandi tímar og yngri kynslóðir mæta nýjum áskorunum með opnum huga og tileinka sér nýja tækni um leið og hún er aðgengileg. Í áskorunum tæknibyltingarinnar felast endalaus tækifæri fyrir atvinnulífið sem nýta þarf í góðri samvinnu aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda.

Höfundur er lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins.

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál og á Vísi 6. desember 2017.

Samtök atvinnulífsins