Vinnustaðaskírteini í fleiri starfsgreinum

Samkomulag SA og ASÍ byggir á lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum en markmið þeirra er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Vinnustaðaskírteinum er einnig ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði.

Nánar er afmarkað í samkomulagi SA og ASÍ til hvaða atvinnugreina það nær og vísast um það til vefsvæðis verkefnisins, www.skirteini.is

Markmið SA er stuðla að því að samkeppnisskilyrði fyrirtækja séu sem jöfnust og hafa SA því tekið þátt í þessu verkefni. Svört atvinnustarfsemi skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja og hefur eftirlitið helst beinst að þeim starfsgreinum þar sem reynslan sýnir að hún er áberandi mikil. Koma má ábendingum um svarta atvinnustarfsemi beint til eftirlitsfulltrúa en nöfn og netföng þeirra má finna á www.skirteini.is

Eftirlitsfulltrúar heimsækja vinnustaði sem falla undir samkomulagið og skrá niður þá starfsmenn sem þar eru við störf. Það sem af er árinu hafa 2.079 einstaklingar verið skráðir af eftirlitsfulltrúum og á árinu 2012 voru skráningar 6.748. Þær upplýsingar fara inn í gagnagrunn sem Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóri hafa aðgang að. Hefur eftirlitið leitt til þess að fjöldi einstaklinga hefur verið felldur af atvinnuleysisbótum sem þeir hafa þegið meðfram svartri vinnu.

Undanfarin tvö sumur hafa SA og ASÍ átt í samstarfi við Ríkisskattstjóra um eftirlit á vinnustöðum. Eftirlitsfulltrúi frá SA/ASÍ hefur þá verið með í för þegar starfsmenn Ríkisskattstjóra heimsækja fyrirtæki. Starfsmenn RSK hafa leiðbeint fyrirtækjum um tekjuskráningu og annað sem snýr að skattalögum en eftirlitsfulltrúar SA/ASÍ hafa skráð starfsmenn á grundvelli laga um vinnustaðaskírteini. Reynslan af þessu sameiginlega eftirliti hefur verið mjög góð og er það mat RSK að svört atvinnustarfsemi hafi dregist verlega saman á þeim svæðum þar sem eftirlitið var virkast.