Efnahagsmál - 

03. janúar 2002

Vinnumarkaður að róast

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vinnumarkaður að róast

Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins ætla fyrirtæki að fækka starfsfólki um tæpt hálft prósent næstu tvo til þrjá mánuði. Í bili virðist sem þenslunni sé lokið á vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins. Eftirspurnin eykst hins vegar á landsbyggðinni.

Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins ætla fyrirtæki að fækka starfsfólki um tæpt hálft prósent næstu tvo til þrjá mánuði. Í bili virðist sem þenslunni sé lokið á vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins. Eftirspurnin eykst hins vegar á landsbyggðinni.

Um miðjan desember voru um tólf hundruð fyrirtæki í Samtökum atvinnulífsins spurð í netpósti hvort þau hygðust fjölga starfsfólki eða fækka á komandi 2-3 mánuðum.  Tekið var fram að lausráðningar væru ekki taldar með. Alls bárust svör frá 422 fyrirtækjum, eða ríflega 30% þeirra sem fyrirspurnina fengu.  Þar af hyggjast 58 bæta við starfsmönnum, 72 ætla að fækka fólki og 283 ætla að hafa jafn marga í vinnu og áður. 

Eins og í fyrri könnunum vega fyrirtæki með færri en 60 starfsmenn fjórfalt á við stærri fyrirtæki  stór fyrirtæki eru með mun betri svörun en lítil).

Þenslunni lokið á höfuðborgarsvæðinu
Nú hyggjast fyrirtæki sem starfa á höfuðborgarsvæðinu eða landinu öllu fækka starfsmönnum um rúmt prósent en fyrirtæki á landsbyggðinni hyggjast fjölga starfsmönnum um hálft prósent. Fyrir ári var þessu öfugt farið, fyrirtæki á landsbyggðinni hugðust fækka starfsfólki en mikil þensla var á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum stórframkvæmdum er að ljúka á höfuðborgarsvæðinu, en lækkun krónunnar og kvótaaukning eru líkast til meginskýringarnar á því að sóst er eftir starfsfólki í fiskvinnslu um þessar mundir.

Samdráttur frá fyrra ári
Að meðaltali hyggjast fyrirtæki samkvæmt könnuninni fækka starfsfólki um tæplega hálft prósent. Þetta er talsverð breyting frá því fyrir ári síðan, þegar niðurstaða sams konar könnunar var sú að fyrirtæki hygðust fjölga starfsfólki um 0,3%.

Mörg lítil fyrirtæki hyggjast fjölga fólki
Athygli vekur að fyrirtæki með 10 starfsmenn og færri hyggjast fjölga starfsmönnum, en stærri fyrirtæki hyggjast fækka fólki.  Svipað kom út úr sambærilegri könnun sem gerð var í júní. Á þessu gætu verið ýmsar skýringar, en þess má geta að erlendar athuganir benda til þess að hagsveiflur (hér: samdráttur) komi fyrr fram hjá stórum fyrirtækjum en litlum.

Ólíkar horfur eftir greinum
Fyrirtæki í fiskvinnslu (SF) hyggjast nú fjölga starfsmönnum um 2-2,5% og fjármálafyrirtæki (SFF) um rúm 1,5%. Þá hyggjast útgerðarfyrirtæki fjölga starfsmönnum um tæpt hálft prósent, en annars staðar hyggjast menn fækka fólki. Rafverktakar (SART) og fyrirtæki í verslun og þjónustu (SVÞ) og í iðnaði (SI) hyggjast fækka starfsfólki um u.þ.b. 1,5%, en í ferðaþjónustu (SAF) er samdrátturinn minni.

Samtök atvinnulífsins