11. september 2022

Lífskjarabati með pennastriki

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Lífskjarabati með pennastriki

Vinna eða frítími. Þetta eru stóru fórnarskiptin sem hver vinnandi maður þarf að meta. Launin kaupa hin efnislegu gæði og frítíminn færir gæðin sem sjaldnast verða keypt.

Samhliða stórbættum lífskjörum seinustu áratugi hefur vinnandi fólk í hinum vestræna heimi kosið að vinna skemur. Í Svíþjóð og Danmörku hefur árlegum vinnustundum á hvern vinnandi mann fækkað um 25-30% frá árinu 1950. Á sama tímabili hefur landsframleiðsla á mann ríflega fimmfaldast. Tölurnar fyrir Ísland eru áþekkar. Þessar undraverðu breytingar, sem eru langt frá því að vera sjálfsagðar, gerðust þó ekki í einu vetfangi heldur hafa átt sér stað með seigfljótandi hætti með tækniframförum og tilheyrandi framleiðniaukningu.

Á þessu sjötíu ára tímabili hefur vinnutími styst um 2 mínútur á dag árlega að meðaltali. Nú eru hins vegar uppi kröfur um að vinnutíminn verði snarlega styttur um 40-50 mínútur á dag og orlof jafnframt lengt um 6 daga á ári, án neikvæðra áhrifa á laun. Þetta eru breytingar sem jafnast á við áratuga þróun.

Stöðug bæting lífskjara er ekki náttúrulögmál heldur afleiðing efnahagslegra framfara

Stöðug bæting lífskjara er ekki náttúrulögmál heldur afleiðing efnahagslegra framfara. Seinustu áratugir hafa verið hagfelldir í hinum vestræna heimi hvað varðar lýðfræðilega samsetningu, tækniþróun og stjórnarfar. Staðan sem blasir við okkur nú er önnur. Vinnuaflsskortur mun ríkja um fyrirsjáanlega framtíð ef ekkert er að gert. Undir þeim kringumstæðum er erfitt að sjá hvernig skapa ætti þá framleiðniaukningu sem réttlætt gæti þær vinnutímabreytingar sem lagðar eru til.

Með Lífskjarasamningnum var ætlunin að líta heildstætt á lífskjör vinnandi fólks, ekki eingöngu launaliðinn. Það markmið stendur enn. Lífskjör verða hins vegar ekki bætt með einu pennastriki í kjarasamningum. Ef svo væri myndum við flest kjósa sjö daga helgar á fullum launum.

Lífskjör verða hins vegar ekki bætt með einu pennastriki í kjarasamningum. Ef svo væri myndum við flest kjósa sjö daga helgar á fullum launum.

Greinin birtist fyrst sem endahnútur Viðskiptablaðsins, 8. september 2022.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri SA