1 MIN
Vindur og vatn - Auðlindagjöld á Skattadegi
Á Skattadegi Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Deloitte sem fram fór í Hörpu í liðinni viku flutti Arnar Birkir Dansson, hagfræðingur á efnahagssviði samtakanna, erindi um auðlindagjöld.
Fór Arnar yfir hvernig við höfum notað hinar ýmsu auðlindir frá landnámi og hvernig Íslendingar gripu tækifærin – þjóðinni allri til góðs. Í erindinu var einnig farið yfir mikilvægi þess að skattaframkvæmd sé góð þegar tryggja á hámarks ávinning þjóðarinnar af nýtingu auðlinda.
Þar kom fram að þær tekjur af auðlindasköttum sem við njótum í dag, eru að mestu afleiðing árangurs undanfarinna ára í góðri nýtingu auðlindanna.
Í erindinu var tekið saman hvaða auðlindagjöld eru greidd á Íslandi.
Meðal gjalda sem greidd eru í ferðaþjónustu er gistináttaskattur og innviðagjald. Samkvæmt lögum á að nýta skattheimtuna úthlutunar til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða. Heildarfjárhæð þessara ferðamannaskatta er metin tæplega fimm milljarðar króna. Þó fær Framkvæmdasjóður ferðamannastaða einungis rétt rúmlega hálfan milljarð til úthlutunar til að sinna nákvæmlega þeim verkefnum sem lögin um skattana kveða á um. Spurt var hvert restin af fjárhæðinni rynni.
Einnig var farið yfir veiðigjald sem breytt var á síðasta þingi eftir metumræður þar um. Í erindinu var komið inn á að fiskur er ekki stöðluð vara. Verð fisks ræðst einkum af stærð, ferskleika, meðhöndlun og aðstæðum. Þannig er verð á óslægðum fiski almennt hærra en verð á slægðum fiski. Var rakið í erindinu að vegna ólíks aflaverðmætis, er veiðigjald ofmetið, því það reiknast sem hlutfall af markaðsverði. Markaðsverðið mótar hins vegar bara lítill hluti aflans eða um 16%. Að auki var bent á þá staðreynd að íslensk útgerð fékk einungis um 48% af því verði sem norskar útgerðir fengu fyrir makríl á uppboðsmarkaði í Noregi innan sama dags. Þetta kom fram í yfirlýsingu Norska uppboðsmarkaðarins, sem mótar það verð aflaverðmætis sem veiðigjald miðast við.
Komið var inn á fiskeldisgjald en gjaldið reiknast af hverju kílógrammi af slátruðum fisk. 2024 voru tekjur ríkisins vegna fiskeldisgjaldsins tæplega einn og hálfur milljarður og hefur sá skattstofn farið mjög hækkandi síðustu ár.
Til viðbótar greiða fiskeldisfyrirtækin sérstakt umhverfisgjald sem er föst upphæð fyrir hvert tonn sem fyrirtæki er heimilt að framleiða. Gjaldið er innheimt óháð því hvað raunverulega er alið af fiski. Þannig eru fyrirtækin síður líkleg til þess að sækja um rekstrarleyfi til framtíðar, því ónýttum leyfum fylgir beinn kostnaður. Um leið skerðist sveigjanleiki fyrirtækja til að bregðast við markaðsaðstæðum og haga framleiddu magni eins og best væri á kosið.
Nefndi Arnar að óhófleg skattlagning getur haft mjög skaðlegar afleiðingar þegar fyrirtæki eru að koma undir sig fótunum. Fiskeldi á Íslandi er ung atvinnugrein og til að mynda hafa afkomutölur fyrirtækjanna verið svo gott sem neikvæðar allt frá stofnun. Sé markmiðið að byggja upp fjölbreytta atvinnuvegi í byggðum víðs vegar um landið þarf að tryggja að ótímabær skattheimta kæfi ekki framtakið áður en verðmætin skapast.
Var komið inn á tvær dæmasögur hvernig mætti leysa vandamál í auðlindanýtingu án mikilla ríkisafskipta.
Tekið var dæmi um landnámsmenn sem deildu sameiginlegum beithögum. Víðfemt landsvæði og breytilegt eftir árstíma gerði það að verkum að sauðfé þurfti stór beitilendi. Að skipta landinu upp milli bænda hefði verið nær ómögulegt. Girðingar yfir slík svæði hefðu verið alltof kostnaðarsamar og að vakta það að sauðfé færi ekki á ranga staði væri alltof mannaflsfrekt. Þannig bændur tóku sig saman og ákváðu í sameiningu umgjörð og regluverk hvernig best væri að nýta sameiginlega beithaga. Saman deildu þeir þá vinnunni við að reka fé og fylgjast með því. Hver og einn bóndi fékk að senda ákveðinn fjölda sem bændurnir tóku ákvörðun um hverju sinni. Hlutverk ríkisins í þessu fyrirkomulagi var lítið, sá það aðalega um að refsa þeim sem ekki stóðu við sínar skuldbindingar. Þannig leit fyrsta kvótakerfi Íslendinga út, með litlum afskiptum ríkisvaldsins.
Þá var rætt hvernig auðlindaskattar ættu að leiðrétta ytri áhrif, en dæmi var tekið með uppbyggingu vindmyllugarða. Nóg er til af vind, og þótt reist séu vindorkuver, verður jafn hvasst í Reykjavík. Séu vindmillur reistar á afskekktum stöðum hafa þær áhrif á mjög afmarkaðan hóp, þó áhrifin á þann hóp geta verið töluverð. Það vandamál er ekki leyst með skattheimtu ríkisins sem rennur frá stöðunum í formi auðlindagjalds til Reykjavíkur og beint í hýtina.
Betur færi ef þeir sem yrðu fyrir áhrifunum myndu fá hlutdeild í hagnaði, þannig yrði hvati til uppbyggingar til staðar og allir myndu róa að því markmiði að hámarka arðsemi uppbyggingarinnar. Þannig þarf ríkið ekki að stíga inn með sértækum hætti, heldur yrði þetta samningsatriði milli aðila.
Var brýnt fyrir salnum að markmiðið má aldrei vera að skilgreina hitt og þetta sem auðlindir í þeim eina tilgangi að afla tekna til ríkissjóðs. Hvar liggja mörkin ef við farið er í þá vegferð spurði Arnar
„Verður notkun einstaklinga á súrefni eða drykkjarvatni skattlögð? Bæði eru það mikilvægar auðlindir og sennilega óteygnasti skattstofn sem til finnst,“ sagði Arnar Birkir. „Sértæk skattlagning líkt og auðlindaskattar eiga hafa tilgang umfram tekjuöflunar.“