Efnahagsmál - 

31. maí 2013

Villandi umræða um gengisbreytingar krónunnar og verð á innfluttum vörum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Villandi umræða um gengisbreytingar krónunnar og verð á innfluttum vörum

Innkaupsverð á innfluttum neysluvörum hækkaði um 4,2% á milli 1. ársfjórðungs 2012 og 1. ársfjórðungs 2013. Á sama tíma hækkaði verð til íslenskra neytenda um 3,7%, þ.e. minna en tilefni var til. Launavísitalan hækkaði enn fremur á sama tímabili um 5,2% en þrátt fyrir það virðist álagning ekki hafa hækkað á tímabilinu.

Innkaupsverð á innfluttum neysluvörum hækkaði um 4,2% á milli 1. ársfjórðungs 2012 og 1. ársfjórðungs 2013. Á sama tíma hækkaði verð til íslenskra neytenda um 3,7%, þ.e. minna en tilefni var til. Launavísitalan hækkaði enn fremur á sama tímabili um 5,2% en þrátt fyrir það virðist álagning ekki hafa hækkað á tímabilinu.

Því er oft haldið fram í opinberri umræðu að styrking gengis krónunnar skili sér seint og illa til neytenda í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Því sé hins vegar öfugt farið þegar gengi krónunnar veikist, þá séu innflytjendur fljótir að hækka vöruverð. Slíkar staðhæfingar byggja á mikilli einföldun og eru villandi. Látið er í veðri vaka að einungis gengi krónunnar standi að baki verðmyndun innfluttra neysluvara. Litið er fram hjá öðrum mikilvægum þáttum, einkum innkaupsverði í erlendri mynt og innlendum kostnaði.

Þá er oft talið eðlilegt að styrking gengis skili sér í verði neysluvöru nánast samstundis eða með lítilli töf. Raunin er að mismunandi er eftir vöruflokkum hve langan tíma tekur fyrir gengisbreytingar að hafa áhrif á verð neysluvöru. Í sumum tilvikum skila gengisbreytingar sér hratt, t.d. í beinum innflutningi smásala á dagvörum þar sem vöruveltan er mikil. Í öðrum tilvikum, þar sem veltan er hægari, skila breytingarnar sér á lengri tíma, t.d. þegar í gildi eru samningar milli birgja og smásala til nokkurra mánaða í senn og til eru birgðir af vörunum til nokkurra mánaða.

Þá kann óstöðugt gengi krónunnar að skapa tregðu til hækkunar eða lækkunar á vöruverði vegna óvissu um varanleika gengisbreytinganna.

Heimsmarkaðsverð á vörum og samningar innflytjenda við erlenda seljendur skipta miklu máli en í umræðunni er áhrifum þess sleppt. Ef gengið væri stöðugt þá skipti innflutningsverðið öllu máli

Undanfarið hefur verið fjallað um samanburð gengis og verðlags síðustu þrjá til sex mánuði. Það getur ekki gefið rétta mynd. Samanburðurinn verður að ná yfir lengra tímabil svo unnt sé að draga traustar ályktanir. Undanfarin ár hafa skipst á tímabil töluverðrar veikingar og styrkingar krónunnar. Núverandi styrking krónunnar hefur staðið síðastliðna þrjá mánuði en þar áður var tímabil veikingar gengisins sem stóð í sex mánuði. Á síðustu mánuðum hafa enn verið að koma fram áhrif til hækkunar innflutningsverðs vegna veikingar krónunnar á tímabilinu á undan.

Verð á innfluttum neysluvörum hækkaði um 3,7% milli 1. ársfjórðungs 2012 og 2013. Á þessu tímabili veiktist gengi krónunnar um 2,2% og stuðlaði að samsvarandi hækkun innflutningsverðs. Innfluttir vöruliðir í vísitölu neysluverðs hækkuðu þannig um 1,5% umfram veikingu krónunnar.

Upplýsingar um verðþróun innfluttra neysluvara til innflutningsaðila eru ekki birtar hér á landi. En verðþróun þeirra má nálgast með krókaleiðum. Á vefsíðu Hagstofunnar eru birtar tölur um innflutt verðmæti (CIF1) og magn þeirra í töflu um "innflutning nokkurra vörutegunda eftir mánuðum". Verðmæti þessara vörutegunda nam 76 milljörðum króna (CIF) árið 2012 sem er um helmings hlutdeild í heildarinnflutningi neysluvara. Á grundvelli þeirra gagna má námunda þróun innflutningsverðs.

Í meðfylgjandi súluriti sjást verðbreytingar þessara vörutegunda milli 1. ársfjórðungs 2012 og 2013. Í verðmætum talið var mest flutt inn af bensíni, fólksbílum, ávöxtum, bílavarahlutum, snyrtivörum og grænmeti. Í súluritinu kemur fram að bensín hækkaði um 6%, fólksbílar lækkuðu um 1%, ávextir hækkuðu um 18%, bílavarahlutir lækkuðu um 10%, snyrtivörur hækkuðu um 1% og grænmeti um 7%. Vegið meðaltal verðbreytinga þessara vöruflokka var 4,2% hækkun. Súluritið sýnir glögglega þær miklu sveiflur sem eru á verði einstakra vörutegunda á heimsmarkaði þótt verðlag sé stöðugt að meðaltali í okkar viðskiptalöndum.

Ef verðþróun þessara vörutegunda endurspeglar heildarinnflutninginn þá er niðurstaðan sú að verð til neytenda hafi hækkað minna en innflutningsverð (CIF) til innflytjenda. Verð til neytenda hækkaði um 3,7% en innflutningsverð um 4,2%.

Innlend kostnaðarþróun hefur einnig áhrif á verð innfluttra neysluvara. Launavísitalan hækkaði um 5,2% á umræddu tímabili, eða meira en innflutningsverðið sem skapar þrýsting til hækkun álagningar. Það virðist þó ekki hafa gerst á umræddu tímabili.

Smelltu á myndina til að stækka.

1) CIF=Cost, insurance, freight. Verð vörunnar á hafnarbakka. Innflutningsverðið eins og það birtist innflytjandanum.

Samtök atvinnulífsins