Efnahagsmál - 

22. febrúar 2001

Villandi meðaltalstölur í launakönnun VR

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Villandi meðaltalstölur í launakönnun VR

Bornar eru saman ósambærilegar tölur og háum prósentutölum skartað í krafti stóraukins vægis stjórnenda og sérfræðinga meðal svarenda, skrifar Gústaf Adolf Skúlason í grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin er birt hér í heild sinni.

Bornar eru saman ósambærilegar tölur og háum prósentutölum skartað í krafti stóraukins vægis stjórnenda og sérfræðinga meðal svarenda, skrifar Gústaf Adolf Skúlason í grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin er birt hér í heild sinni.


Fræg eru orð Benjamins Disraeli, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, eitthvað á þá leið að til væru "lygar, bölvaðar lygar og svo tölfræði." Hér er ekki ætlunin að væna Verzlunarmannafélag Reykjavíkur um ósannindi, en á fréttavef Samtaka atvinnulífsins (sa.is) hefur hins vegar verið vakin athygli á nokkrum atriðum sem hafa ber í huga við túlkun niðurstaðna launakönnunar VR. Raunar hefur umfjöllunin um könnunina hingað til nær eingöngu snúist um niðurstöður hennar um áhrif háralits, hæðar og brostíðni á launakjör. Tölur um viðvarandi launamun kynjanna hafa þó jafnframt hlotið nokkra umfjöllun, enda hljóta þær að valda vonbrigðum. VR hefur hins vegar boðað auglýsingaherferð á grundvelli niðurstaðna könnunarinnar og vænta má að þar verði athyglinni beint að öðrum niðurstöðum hennar en framangreindum. Í ljósi þess er ástæða til að vekja athygli á ákveðnum atriðum, ekki síst villandi tölum um meðaltalshækkun dagvinnulauna og heildarlauna.

Miklar sveiflur í svörun
Samkvæmt hráum niðurstöðum könnunar VR hækkuðu dagvinnulaun að meðaltali um 19% og heildarlaun um 21% á 19 mánaða tímabili, frá febrúar árið 1999 til september árið 2000. Á dögunum voru jafnframt birtar niðurstöður launakönnunar Kjararannsóknarnefndar þar sem fram kemur að dagvinnulaun hafi að meðaltali hækkað um 8,3% á 12 mánaða tímabili frá 3. ársfjórðungi 1999 til 3. ársfjórðungs 2000. Munurinn er miklu meiri en svo að hann skýrist af mislöngu tímabili kannananna og mikilvægustu skýringarnar er að finna í gríðarlegum sveiflum í svörun einstakra hópa á milli kannana VR.
     Forsvarsmenn VR hafa sjálfir látið þess getið að "umframhækkun" félagsmanna í VR (launavísitalan hækkaði um 9% á tímabilinu) megi m.a. rekja til fjölgunar meðal stjórnenda og sérfræðinga á vinnumarkaðnum og betri svörunar hjá þessum hópi en í könnun síðasta árs. Í könnun VR fyrir árið 1999 var hlutfall stjórnenda og sérfræðinga 18% svarenda, en í könnuninni fyrir árið 2000 ár var hlutfall þessa hóps 31%. Engin tilraun er gerð til að leiðrétta fyrir þennan mikla mun í tölfræðilegri framsetningu niðurstaðnanna, þótt augljóslega sé verið að bera saman ósambærilega hópa. Á fréttavef SA hefur verið sýnt fram á hvernig einföld leiðrétting á vægi einstakra hópa getur skilað hvoru tveggja 10% og 16% hækkun dagvinnulauna, og 11% og 18% hækkun heildarlauna. Það sem skiptir sköpum er við hvaða hlutföll í svörun menn miða, og munurinn þarna á milli skýrist af mismunandi launaþróun einstakra hópa.
     Aðalatriðið er að í kynningu niðurstaðna hefur ekki verið tekið á þessum sveiflum. Bornar eru saman ósambærilegar tölur og háum prósentutölum skartað í krafti stóraukins vægis stjórnenda og sérfræðinga meðal svarenda. Kannski hefði VR tekið á þessu ef sveiflan hefði verið í hina áttina og þannig haft áhrif til lækkunar niðurstöðutalna um meðalhækkun launa.

Traustari tölur hjá Kjararannsóknarnefnd
Spurningalistar könnunar VR voru sendir öllum félagsmönnum sem uppfylltu ákveðin lágmarksskilyrði um heildarlaun og lengd félagsaðildar. 29% þeirra svöruðu og niðurstöðurnar byggja á gögnum frá 78% svarenda. Velta má vöngum yfir því hvort svör þessara 29% VR-félaga gefi rétta heildarmynd, en meiri athygli vekur þó sú ákvörðun að byggja niðurstöður könnunarinnar einungis á 78% fenginna svara þar sem m.a. höfðu verið tekin út svör þeirra sem eru í minna en 70% svarhlutfalli. Í skýrslunni kemur fram að þetta sé gert þar sem fyrri rannsóknir bendi til þess að "fólk hafi hlutfallslega lægri grunnlaun eftir því sem það er í lægra starfshlutfalli." Í stað þess að uppreikna laun þessa hóps er honum því sleppt til þess að hann dragi ekki niður meðaltalið. Þá kemur fram að svörunin hjá yngsta hópnum (16 til 20 ára) var verri en hjá öðrum aldurshópum, sem enn dregur úr vægi lægra launaðra hópa í meðaltalinu.
      Niðurstöður Kjararannsóknarnefndar um launabreytingar grundvallast hins vegar á því sem nefnt er parað úrtak. Mældar eru breytingar fyrir 5.410 einstaklinga sem voru í úrtaki nefndarinnar bæði á 3. ársfjórðungi 1999 og á 3. ársfjórðungi 2000. Þar er því augljóslega um að ræða  traustari samanburð á milli ára en hjá VR, þar sem ekki gætir áhrifa af sveiflum í svörun. Þá má geta þess að tölur Kjararannsóknarnefndar byggja á bókhaldsgögnum fyrirtækja.

Allt niður í fjóra bak við launatölur
En könnun VR sýnir ekki einungis heildartölur. Í launatöflunum eru svörin brotin niður eftir greinum og starfsheitum og birtar eru upplýsingar þar sem svörun er allt niður í fjóra einstaklinga. Þó er tekið fram að ef upplýsingarnar grundvallist á svörum innan við tíu einstaklinga sé "ágæt regla" að líta á þær sem vísbendingu um laun og launaþróun en ekki beina viðmiðun. Menn geta kallað slíkar  tölur vísbendingar, en tölfræðileg marktækni þeirra er hverfandi. Væntanlega má treysta því að VR muni í auglýsingaherferð sinni ekki reyna að flagga slíkum vísbendingum líkt og um vísindalegar niðurstöður væri að ræða, sem þær eru ekki.

Flestir undir meðaltalslaunum
Loks má geta þess að í könnun VR gefur að líta kunnuglega meginreglu þess efnis, að laun flestra eru undir meðallaunum þeirra hóps. Ef bornar eru saman tölur könnunarinnar um meðaltal annars vegar og miðtölur hins vegar, er meðaltalið nær alltaf hærra og munar oft miklu. Með öðrum orðum, hæst launuðu einstaklingar hvers hóps virðast í nær öllum tilfellum hafa meiri áhrif á meðaltalið en þeir lægst launuðu. Þannig er meirihluti einstaklinga nær allra hópanna undir meðaltalslaunum síns hóps.
     Upplýsingar könnunar VR um heildarmeðalhækkun launa annars vegar, og um meðallaun einstakra hópa hins vegar, eru því engan veginn þær viðmiðanir sem margir VR-félagar eflaust kysu. Vonandi má treysta því að VR reyni ekki að halda öðru fram í auglýsingaherferð sinni.

Höfundur er forstöðumaður stefnumótunar-

  og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins