Fréttir - 

16. desember 2014

Vilji til að endurvekja verðbólguna?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vilji til að endurvekja verðbólguna?

Veruleg kaupmáttaraukning á síðustu tólf mánuðum og hröð hjöðnun verðbólgu sýnir með óyggjandi hætti að mikill árangur hefur náðst í kjölfar undirritunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir ári síðan. Ársverðbólga mælist nú aðeins um 1% og er lægri en hún hefur verið í 60 ár. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir mikilvægt að halda áfram á sömu vegferð. Hins vegar valdi það áhyggjum að verkalýðshreyfingin tali um að leiðrétta þurfi laun sérstaklega áður en samið verði um almennar launahækkanir í næstu samningum. „Þetta er krafa um að endurvekja verðbólguna.“

Veruleg kaupmáttaraukning á síðustu tólf mánuðum og hröð hjöðnun verðbólgu sýnir með óyggjandi hætti að mikill árangur hefur náðst í kjölfar undirritunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir ári síðan. Ársverðbólga mælist nú aðeins um 1% og er lægri en hún hefur verið í 60 ár. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir mikilvægt að halda áfram á sömu vegferð. Hins vegar valdi það áhyggjum að verkalýðshreyfingin tali um að leiðrétta þurfi laun sérstaklega áður en samið verði um almennar launahækkanir í næstu samningum. „Þetta er krafa um að endurvekja verðbólguna.“

Rætt var um stöðuna á vinnumarkaði og horfurnar framundan við Þorstein Víglundsson og Ólafíu B. Rafnsdóttur, formann VR og varaforseta ASÍ í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sl. sunnudag.

Vinnumarkaður og verðstöðugleiki haldast í hendur
Í þættinum benti Þorsteinn m.a. á að Samtök atvinnulífsins hafi talað fyrir því að tekin verði upp sambærileg vinnubrögð við gerð kjarasamninga og á Norðurlöndunum. Á Íslandi séu gerðir miðlægir kjarasamningar sem nái til þorra landsmanna. Miklu máli skipti hver niðurstaðan er en launagreiðslur nemi nærri 60% af landsframleiðslu. „Ef við erum að hækka laun langt umfram svigrúm þá þýðir það einfaldlega verðbólgu. Það hefur verið raunin hjá okkur undanfarna áratugi.“

Þorsteinn segir það vera grunnlærdóm Norðurlandanna að það verði að ná tökum á vinnumarkaði og þætti vinnumarkaðar í hagstjórn til að ná verðlagsstöðugleika. Það sama eigi við hér á landi. „Það tókst ágætlega upp í síðustu lotu en það er margt sem hefur farið afvega í millitíðinni sem þarf að vinna úr núna.“ Þorsteinn nefnir í því sambandi kjarasamninga opinberra starfsmanna en kjarasamningar sem SA hafi gert hafi allir verið meira og minna á sömu línu. Þeirri línu sem var mótuð í kjarasamningunum í desember 2013 og við endurskoðun samninganna febrúar 2014.

„Það er hins vegar ljóst þegar kom að kjarasamningum kennara þá var farið að semja þar um allt aðrar stærðargráður í hækkunum heldur en við höfðum verið að vinna með og það hefur verið viðvarandi vandi í opinberu samningunum síðan. Við erum að sjá það núna þegar við lítum til baka þá er almenni vinnumarkaðurinn að hækka að jafnaði um um það liðlega fimm prósent á meðan opinberi markaðurinn í heild er að hækka um liðlega átta.“

Ekki tilefni til upplausnar
Þorsteinn segir að ef horft er aftur til ársins 2000 þá sé ágætis jafnvægi á milli almenna og opinbera markaðarins í heild. Ná verði utan um þá stöðu sem uppi er núna.  „Það sést mjög skýrt í sameiginlegri talnavinnu sem aðilar vinnumarkaðarins  hafa unnið í aðdraganda þessarar lotu að það er ágætis jafnvægi heilt yfir. Kennarar eru vissulega aðeins á undan heildinni núna en það er ekki eitthvað sem ætti að valda stórkostlegri upplausn á vinnumarkaði.“

Varðandi umræðu um launaskrið  bendir Þorsteinn á að launaþróun hafi verið mjög einsleit á almenna vinnumarkaðnum langt fram eftir ári. Í september og október hafi hins vegar orðið vart við launaskrið á almenna vinnumarkaðnum. „Það er hins vegar ekki launaskrið sem tengist tilteknum kjarasamningum sem við höfum verið að gera. Það er frekar eitthvað sem má rekja til þrýstings vegna umræðunnar sem hefur verið, vegna umræðunnar um kjarasamninga opinberra starfsmanna og fleira.“

Blikur á lofti
Afleiðingar þess að hækka laun umfram það sem samfélagið getur staðið undir eru vel þekktar á Íslandi. „Við erum búin að prófa þetta áratugum saman og alltaf með sömu niðurstöðu. Við fáum óðaverðbólgu og á endanum gengisfall til þess að leiðrétta kúrsinn eftir að allt er komið í óefni.“ Það gerðist síðast 2008 en Þorsteinn segir mikilvægt þegar horft er til kreppunnar sem þjóðin sé rétt að byrja að jafna sig á, að gleyma því ekki að þetta var ekki bara bankakreppa. „Þetta var líka almenn efnahagskreppa og hún kom til útaf miklu uppsöfnuðu ójafnvægi í íslensku efnahagslífi yfir mjög langt tímabil. Það má í raun segja að við höfum verið í samfelldu ójafnvægi frá því skömmu eftir að þjóðarsáttarsamningarnir náðust.“

Öll nágrannalönd Íslands hafa viðurkennt að laun verði að þróast í takt við framleiðniaukningu. Þorsteinn nefnir t.d. Svía sem hafa gert það með góðum árangri og uppskorið ríkulega fyrir vikið.  „Af því að umhverfið verður stöðugra, fyrirtækin horfa lengra fram á veginn, fjárfesta meira, þar með verður verðmætasköpunin öflugri og grundvöllur til þess að greiða enn hærri laun en ella. Það er þetta sem við viljum horfa á.“

Stjórnendur sýni ábyrgð
Mikil umræða hefur farið fram um laun stjórnenda frá því í haust. Þorsteinn segir þá verða að ganga á undan með góðu fordæmi við framkvæmd kjarasamninga og ekki síst gagnvart sjálfum sér og eigin launaþróun. Þetta hafi Samtök atvinnulífsins ítrekað bent á en varðandi launaþróun stjórnenda vísar Þorsteinn til sameignlegra gagna sem aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið saman vegna næstu kjarasamninga.

„Við erum búin að vera með samfellt átak um að hækka lægstu laun sérstaklega í kjarasamningum frá 2006, með krónutöluhækkunum öll þessi ár að 2007 held ég undanskildu. Það hefur skilað mjög miklum árangri, lægstu launin hafa hækkað umtalsvert umfram meðallaun í landinu og umtalsvert  umfram flesta aðra hópa. Það sem við erum að sjá er að láglaunahóparnir hafa verið að hækka um 70-80% á þessu tímabili. Almenna launavísitalan hefur hækkað um liðlega 60% yfir þetta tímabil frá 2006 og stjórnendur um það bil 45%. Þetta er til og með þessu ári.“

Hann segir hagsmuni launafólks og fyrirtækja fara saman.

„Við höfum andmælt því sem gjarnan er í umræðunni að við stöndum einhvern veginn í vegi fyrir kjarabótum í samfélaginu. Við höfum ríka hagsmuni af því sameiginlega að bæta lífskjör og það viljum við gera. Við viljum bara gera það þannig að við séum samkeppnishæf til langframa við nágrannalönd okkar.“

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið á Sprengisandi 

Samtök atvinnulífsins