Samkeppnishæfni - 

12. maí 2005

Vilji forsætisráðherra að lágmarka opinbert eftirlit

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vilji forsætisráðherra að lágmarka opinbert eftirlit

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í síðustu viku tók Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra undir þau sjónarmið sem SA settu fram fyrir ári síðan í ítarlegri skýrslu um eftirlit með atvinnustarfsemi og tillögur til úrbóta. Þetta er fagnaðarefni, enda er aukin hagkvæmni á þessu sviði gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild.

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í síðustu viku tók Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra undir þau sjónarmið sem SA settu fram fyrir ári síðan í ítarlegri skýrslu um eftirlit með atvinnustarfsemi og tillögur til úrbóta. Þetta er fagnaðarefni, enda er aukin hagkvæmni á þessu sviði gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild.

Forsætisráðherra sagði tillögur samtakanna í veigamestum atriðum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, en lagt var til að umfang opinbers eftirlits yrði lágmarkað, það einfaldað og samræmd framkvæmd þess yrði tryggð eins og frekast væri unnt.

Nánar felst t.d. í þessu að kröfur til vöru, þjónustu og starfshátta gangi ekki lengra en alþjóðleg viðmið gera ráð fyrir og séu samræmdar um allt land. Einnig að eftirliti sé ekki komið á nema ávinningur af því sé meiri en kostnaðurinn og að ávallt sé valið einfaldasta form eftirlits, t.d. byggt á innra eftirliti fyrirtækja sjálfra. Þar sem beint eftirlit er talið nauðsynlegt á að færa það út á markaðinn og leyfisveitingar á að einfalda og samþætta. Gjaldtaka á að vera í samræmi við kostnað sem af eftirliti hlýst.

Verk að vinna

Það er mikið verk að vinna. Í ávarpi Halldórs Ásgrímssonar kom fram að færa mætti fyrir því rök að Ísland þyrfti að leggja meira af mörkum en áður til að halda stöðu sinni meðal þjóða heimsins þar sem alþjóðleg samkeppni færi vaxandi. Þetta er hárrétt hjá forsætisráðherra. Til að dragast ekki aftur úr verðum við að halda áfram að vinna að því að tryggja íslenskum fyrirtækjum sambærileg kjör við það sem þekkist í okkar helstu samkeppnislöndum - og helst betri. Þunglama-legt opinbert eftirlit og dulin skattheimta sem oft felst í því, er ekki líklegt til að tryggja stöðu Íslands í fremstu röð.

Einn rekstur, fimm leyfi

Ánægjulegt er að starfshópur þriggja ráðuneyta er nú að skoða fyrirkomulag á leyfisútgáfum fyrir veitingahús, en þar hafa SA ítrekað vakið athygli á mikilvægi hagræðingar. Það getur ekki verið nauðsynlegt að veitingamenn þurfi fimm leyfi fyrir sinn rekstur og raunar blasir við að eitt leyfi hlýtur að nægja. Það er von og trú Samtaka atvinnulífsins að stjórnvöld muni taka fleiri svið til skoðunar í þessu skyni, líkt og lagt er til í fyrrnefndri skýrslu samtakanna.

 

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins