Efnahagsmál - 

14. Mars 2008

Víðtækur stuðningur við kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Víðtækur stuðningur við kjarasamninga

Nýgerðir kjarasamningar voru samþykktir með miklum meirihluta. Innan Samtaka atvinnulífsins samþykktu 88% þeirra sem greiddu atkvæði samninginn og þátttakan var 38,4% sem er mjög góð þátttaka miðað við það sem gengur og gerist í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Samtaka atvinnulífsins sem atkvæði eru greidd um kjarasamninga almennri kosningu meðal félagsmanna en ráð er fyrir því gert í samþykktum að stefnumarkandi heildarkjarasamningar geti farið í slíka afgreiðslu.

Nýgerðir kjarasamningar voru samþykktir með miklum meirihluta. Innan Samtaka atvinnulífsins samþykktu 88% þeirra sem greiddu atkvæði samninginn og þátttakan var 38,4% sem er mjög góð þátttaka miðað við það sem gengur og gerist í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Samtaka atvinnulífsins sem atkvæði eru greidd um kjarasamninga almennri kosningu meðal félagsmanna en ráð er fyrir því gert í samþykktum að stefnumarkandi heildarkjarasamningar geti farið í slíka afgreiðslu.

Hinn víðtæki stuðningur félaga Samtaka atvinnulífsins við nýgerða samninga er afar mikilvægur. Í honum felst mikil samstaða um þá leið sem farin var og þegar litið er til hins afgerandi stuðnings við samningana í verkalýðshreyfingunni má líta svo á að hinn almenni vinnumarkaður hafi náð allsherjar samstöðu um þróun kjaramála á næstu þremur árum. Með því eru send sterk skilaboð til þeirra sem gera aðra kjarasamninga í framhaldinu. Ef þeir kjarasamningar eru ekki á sömu nótum og heildarkjarasamningarnir verður að líta á það sem beina andstöðu við þá almennu leið sem farin var þar en svigrúm til kjarabóta var beint til þeirra sem vinna á lægstu kauptöxtunum og þeirra sem setið höfðu eftir í launaþróun síðustu missera.

Hinir nýju kjarasamningar geta verið nokkuð flóknir í framkvæmd í einstökum tilvikum. Því er nauðsynlegt að vanda vel til framkvæmdar þeirra breytinga sem samið hefur verið um. Rétt framkvæmd samninganna tryggir árangurinn. Það á að hækka þau laun sem um hefur samist en önnur ekki. Allar aðrar launaákvarðanir verða að bíða. Fyrirtæki þurfa líka að hafa í huga að það eru næstum tvö ár undir án almennrar flatrar launahækkunar yfir línuna sem kemur ekki fyrr en í ársbyrjun 2010. Á þessum tíma gefst nægur tími til að aðlaga launakerfi að breyttum aðstæðum og þeim áherslum sem samþykktar voru í kjarasamningunum 17. febrúar.

Vissulega koma launahækkanirnar í samningunum misjafnlega niður bæði hjá starfsfólki og fyrirtækjum. Mörg fyrirtæki verða fyrir umtalsverðum kostnaðarhækkunum og þurfa þess vegna svigrúm til að hækka verð á vöru eða þjónustu. Önnur fyrirtæki verða ekki fyrir neinum teljandi kostnaðarhækkunum af völdum samninganna og þurfa ekki að breyta verði af þeim ástæðum. Hins vegar verður að hafa í huga að fyrirtæki þurfa að íhuga vel allar verðbreytingar hvort heldur er vegna kjarasamninganna eða þeirrar innfluttu verðbólgu sem nú gengur yfir vegna þróunar á alþjóðlegum mörkuðum og gengislækkunar krónunnar. Efnahagslífið er að hægja á sér og það mun koma fram almennt í minni eftirspurn þrátt fyrir ýmsar fréttir af góðu gengi á einstökum mörkuðum. Íbúðaverð hækkar ekki lengur langt umfram annað frá mánuði til mánaðar og það gefur vonir um að núverandi verðbólgugusa verði skamvinn.

Í vikunni gaf Hagstofa Íslands það út að hagvöxtur á árinu 2007 hefði verið 3,8%. Langt fram eftir síðasta ári spáðu bæði fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn innan við 1% hagvexti þrátt fyrir að störfum á vinnumarkaði væri að fjölga um 4% til 5% og veruleg umframeftirspurn væri eftir starfsfólki. Það er óásættanlegt hvað lykilhagtölur um íslenskan þjóðarbúskap eru á miklu reiki. Samtök atvinnulífsins hafa margoft bent á nauðsyn þess að bæta þarna úr en svo virðist sem ástand þessara mála versni stöðugt.

Kjarasamningarnir 17. febrúar eru viðbrögð ábyrgra samningsaðila við þeirri stöðu sem upp er komin í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Með þeim var leitast við að taka á stærstu vandamálunum á vinnumarkaðnum og skapa þannig grundvöll fyrir efnahagslegum stöðugleika og hjöðnun verðbólgu. Undir þetta var tekið í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar samhliða samningunum og með henni voru gefin skýr skilaboð til Seðlabankans um að nú væri unnt að lækka vexti.

Nú þegar peningastefna Seðlabankans hefur beðið skipbrot með gengislækkun undanfarinna vikna ætti að vera ljóst að gengi krónunnar verður ekki haldið uppi með stýrivöxtum bankans langt yfir langtíma jafnvægisgengi. Framundan er óverulegur hagvöxtur eða jafnvel samdráttur og því mun þenslan í þjóðarbúskapnum hverfa hratt. Í ljósi þess vekur undrun að amast sé við fjárfestingum í atvinnulífinu, eins og Helguvíkurverkefninu, með þeim rökum að það hafi einhver áhrif á stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans. Tímasetning þess verkefnis er þvert á móti mjög heppileg í ljósi þess að fjárfestingar atvinnulífsins verða í lágmarki á næstunni.

Nýgerðir kjarasamningar voru sérstakir að því leyti að um helmingur launamanna á almennum markaði á ekki rétt á launabreytingum á þessu ári og að hluti atvinnulífsins tók á sig á móti verulegar byrðar við að hækka lægstu launin og laun þeirra sem setið höfðu eftir. Þetta var grundvöllur að víðtækustu sátt á vinnumarkaðnum um árabil. Þessi sátt getur skilað tilætluðum árangri ef rétt er á málum haldið og vonandi leggjast allir á eitt til að tryggja að svo verði.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins