Viðspyrnustyrkir til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna COVID-19

Rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 31. maí 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk úr ríkissjóði til að mæta rekstrarkostnaði í mánuðinum. Áskilið er að tekjufallið stafi af heimsfaraldri kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar.

Tvö viðmið um tekjufall eru notuð til grundvallar útreiknings styrkfjárhæðar:

  1. 60-80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna á mánuði (samtals 14 milljónir fyrir 7 mánaða tímabil).
  2. 80-100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna á mánuði (samtals 17,5 milljónir fyrir 7 mánaða tímabil).

Fjárhæð viðspyrnustyrks skal vera að hámarki 90% af rekstrarkostnaði, þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að fjármálaráðherra benti á það í kynningunni í Hörpu í dag að viðmiðunartímabil viðspyrnustyrkja verði sami mánuður árið 2019, þ.e. að hægt verður að sækja um styrk fyrir einn mánuð í einu og miðast útreikningur styrkfjárhæðar þá við fjölda stöðugilda í sama mánuði árið 2019. Þessi útfærsla gerir það að verkum að hlutabótaleið og uppsagnir hafa ekki áhrif á útreikning fjárhæðar viðspyrnustyrks.

Til að koma til móts við þá einyrkja og minni rekstraraðila sem höfðu lítinn sem engan rekstrarkostnað á tímabilinu vegna þess að starfsemin var í lágmarki vegna faraldursins er heimilað að miða rekstrarkostnað við reiknað endurgjald í sama almanaksmánuði í skattframtali vegna rekstrarársins 2019.

Til að hljóta styrk þurfa umsækjendur að auki að uppfylla öll önnur skilyrði frumvarpsins, svo sem um skattskyldu á Íslandi, tekjur að lágmarki 500 þúsund krónur frá 1. janúar 2020 til loka október 2020, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til skattsins og um að hafa ekki verið teknir til slita eða gjaldþrotaskipta. Líkt og gildir um lokunarstyrki og tekjufallsstyrki er lagt til að bæði umsóknar og ákvörðunarferli verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum. Jafnframt að ákvarðanir hans sæti kæru til yfirskattsnefndar.

Þarft þú að sækja um úrræði?

Stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar ýmsar aðgerðir vegna heimsfaraldursins, sem nýtast einstaklingum og fyrirtækjum með beinum hætti. Hér getur þú kynnt þér helstu úrræði sem eru virk núna eða í vinnslu og fengið upplýsingar um hvar og hvernig sótt er um.