Viðsnúningur á vinnumarkaði (1)

Niðurstöður ársfjórðungslegrar vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands fyrir 4. ársfjórðung 2004 sýna fjölgun starfa um 3.100 eða sem nam 2,0%. Á fjórðungnum voru starfandi menn samtals 156.300. Þetta er viðsnúningur frá ársfjórðungunum á undan þar sem könnunin mældi fækkun starfa bæði á þriðja og öðrum fjórðungi ársins.

Starfandi fólki fækkaði hins vegar á árinu 2004 í heild um 750 eða um 0,5%.  Meðalvinnutími á árinu lengdist á hinn bóginn úr 41,8 stundum í 42,0 eða um 0,5% þannig að vinnumagnið í heild var óbreytt á árinu. Sé þessi niðurstaða borin saman við hagvöxt á árinu, sem líklega var á bilinu 5-6% þá hefur framleiðni starfandi fólks aukist mikið á árinu 2004, eða sem nam hagvextinum. Með framleiðni er átt við hlutfallið milli aukningar landsframleiðslu og heildarfjölda starfandi.

Tæplega 5.000 manns voru að jafnaði atvinnulausir á árinu 2004 og fækkaði um liðlega 500 frá árinu áður. Atvinnuleysi var 3,1% á árinu og minnkaði úr 3,4% árið áður. Atvinnuþátttaka minnkaði mikið en hún var 80,8% samanborið við 82,2% árið 2003.