Efnahagsmál - 

03. Júlí 2003

Viðsnúningur á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Viðsnúningur á vinnumarkaði

Allur þorri fyrirtækja hyggst halda óbreyttum fjölda starfsfólks næstu þrjá til fjóra mánuði, eða 77%, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní. 13% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki en 10% hyggjast fækka því. Þetta er töluverður viðsnúningur frá síðustu ráðningaráformakönnun SA sem gerð var í desember 2002, en þá hugðist 21% fyrirtækja fækka starfsfólki en 8% hugðust fjölga því.

Allur þorri fyrirtækja hyggst halda óbreyttum fjölda starfsfólks næstu þrjá til fjóra mánuði, eða 77%, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní. 13% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki en 10% hyggjast fækka því. Þetta er töluverður viðsnúningur frá síðustu ráðningaráformakönnun SA sem gerð var í desember 2002, en þá hugðist 21% fyrirtækja fækka starfsfólki en 8% hugðust fjölga því.

Fækkun starfsfólks í sjávarútvegi og fjármálaþjónustu
Mikill munur er á svörum fyrirtækja eftir atvinnugreinum, en prósentutölur um mismun milli greina og starfssvæða eru þó einungis til grófrar viðmiðunar, sbr. fyrirvara hér að neðan. Þannig hyggjast fyrirtæki í fiskvinnslu (SF) og útgerð (LÍÚ) fækka starfsfólki um 2,8 og 2,4% og fjármálafyrirtæki (SFF) um 1,7%. Hins vegar hyggjast fyrirtæki í iðnaði (SI) og ferðaþjónustu (SAF) fjölga starfsfólki um 0,9%, í verslun og þjónustu um 0,4% (SVÞ) og rafverktakar (SART) um 0,3%.

Fjölgun framundan á höfuðborgarsvæðinu
Loks hyggjast fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu fjölga starfsfólki um 0,8 % að meðaltali, en fyrirtæki á landsbyggðinni og þau sem hafa allt landið sem starfssvæði hyggjast fækka starfsfólki örlítið, eða u.þ.b. 0,1%.

Fyrirvari við hlutfallstölur
Færri fyrirtæki gáfu upplýsingar um hve mörgum starfsmönnum þau hyggjast bæta við eða fækka um en í síðustu könnun. Prósentutölur um þróun í einstökum greinum og á einstökum starfssvæðum, sem byggðar eru á fjöldatölunum, eru því eingöngu grófar viðmiðanir um þróunina framundan. Í janúar sl. var sagt frá því að fyrirtæki hygðust að meðaltali fækka starfsfólki um 1,55%, skv. könnun SA. Þar sem færri fyrirtæki gáfu nú upp hversu mörgu starfsfólki þau hygðust bæta við eða fækka um er ekki nægileg forsenda fyrir slíkum heildarsamanburði að þessu sinni. Ljóst er þó að mikil breyting hefur orðið þarna á og að jafnvægi ríkir nú á vinnumarkaði eftir stutt tímabil slaka í kjölfar þenslu á árabilinu 1997-2001.

Um könnunina
Könnunin var gerð í júní 2003. Spurningar voru sendar til 1.039 aðildarfyrirtækja SA og svör bárust frá 585, eða 56,3%.


 

Samtök atvinnulífsins