Viðskiptalíf G20: Fyrirtækin þurfa aðgang að fjármagni

Fulltrúar atvinnulífsins í 20 helstu ríkjum heims (G20) hittust í dag í Downingstræti 10 í London til að ræða viðbrögð við alþjóðlegu fjármálakrísunni. Öll fyrirtæki verða nú fyrir barðinu á afleiðingum krísunnar, jafnvel vel rekin fyrirtæki sem tengjast fjármálastarfsemi ekki á nokkurn hátt. Forseti BUSINESSEUROPE (Evrópusamtaka atvinnulífsins), Ernest-Antoine Seillière, ræddi m.a. við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og Peter Mandelson, viðskiptaráðherra. Seillière lagði áherslu á að fyrirtækjum verði tryggður eðlilegur aðgangur að fjármagni og varaði sterklega við verndarstefnu og einangrunarhyggju.

BUSINESSEUROPE vinnur nú að aðgerðaáætlun sem er ætlað að auðvelda stórum fyrirtækjum sem smáum aðgang að fjármagni. Jafnframt hvetur BUSINESSEUROPE G20 ríkin til aukinnar samvinnu í baráttunni við alþjóðlegu fjármálakrísuna. Markmiðið með fundi fulltrúa viðskiptalífsins í G20 ríkjunum í London í dag var að stilla saman strengina fyrir fund leiðtoga G20 ríkjanna sem fram fer í London þann 2. apríl næstkomandi. Miklar væntingar hafa verið bundnar við að þar verði kynnt alþjóðleg  viðbrögð við efnahagskreppu heimsins.

Áherslur BUSINESSEUROPE voru kynntar á fundinum í London í dag og þær má nálgast hér að neðan. Í þeim segir m.a. að fyrirtæki um alla Evrópu líði nú fyrir skort á fjármagni og umsvif í efnahagslífinu dragist hratt saman. Fjárfesting í atvinnulífinu sé á undanhaldi, verslun hafi minnkað og atvinnuleysi aukist. Verði ekkert að gert verði félagslegar afleiðingar fjármálakrísunnar dýrkeyptar. Það sé kominn tími til að grípa til aðgerða - atvinnulífið verði að fá fjármagn á samkeppnishæfum kjörum.

Rétt er að halda því til haga að á Íslandi eru stýrivextir 18% og rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi því afleitt. SA hafa bent á að mikilvægasta aðgerðin í atvinnumálum sé lækkun stýrivaxta.

Í áherslum sínum leggja BUSINESSEUROPE áherslu á að ekki sé nóg að koma á stöðugleika í fjármálakerfinu, búa þurfi þannig um hnútana að fjárfesting í atvinnulífinu geti hafist á nýjan leik til að skapa störf og efla velferð.

Sjá nánar:

Áherslur BUSINESSEUROPE á G20-Business fundi í London 18. mars (PDF)