Efnahagsmál - 

11. September 2008

Viðskiptahindranir gagnast ekki í baráttunni við loftslagsbreytingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Viðskiptahindranir gagnast ekki í baráttunni við loftslagsbreytingar

Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum og Samtök breska iðnaðarins hafa í sameiningu sent frá sér skýrslu þar sem fjallað er um hugmyndir um sérstakar viðskiptahindranir til að hvetja til þess að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í ríkjum sem ekki hafa sett sér útstreymisþak. Hugmyndir um slíkar viðskiptahindranir hafa verið til umræðu í Evrópusambandinu. Í skýrslu samtakanna er sýnt fram á að þessar hugmyndir séu ekki líklegar til að skila árangri í baráttu við loftslagsbreytingar, þær hafi slæm áhrif á lífskjör almennings og skekki samkeppnisstöðu evrópsks atvinnulífs. Þá séu umhverfisáhrifin í besta falli sáralítil og að slíkar aðgerðir geti leitt til gagnaðgerða sem skaði útflutning frá Evrópu.

Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum og Samtök breska iðnaðarins hafa í sameiningu sent frá sér skýrslu þar sem fjallað er um hugmyndir um sérstakar viðskiptahindranir til að hvetja til þess að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í ríkjum sem ekki hafa sett sér útstreymisþak. Hugmyndir um slíkar viðskiptahindranir hafa verið til umræðu í Evrópusambandinu. Í skýrslu samtakanna er sýnt fram á að þessar hugmyndir séu ekki líklegar til að skila árangri í baráttu við loftslagsbreytingar, þær hafi slæm áhrif á lífskjör almennings og skekki samkeppnisstöðu evrópsks atvinnulífs. Þá séu umhverfisáhrifin í besta falli sáralítil og að slíkar aðgerðir geti leitt til gagnaðgerða sem skaði útflutning frá Evrópu.

Áhrif ESB á stefnu annarra ríkja takmörkuð

Samtök atvinnulífsins í Svíþjóð (SN) höfðu forystu um að gera skýrsluna undir heitinu European Carbon-Based Trade Measures: A Solution in Search of the Problem. Þar er fjallað um þær aðferðir sem lagt hefur verið til að beita svo ríki utan ESB dragi úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Í fyrsta lagi að leggja toll á allar vörur frá ríkjum sem ekki hafa skuldbundið sig til að draga úr útstreyminu. Í öðru lagi að leggja tolla  á vörur í samkeppni við framleiðslu innan ESB sem fellur undir viðskiptakerfi með útstreymisheimildir í þeim tilgangi að jafna samkeppnisstöðu tiltekinna framleiðslugreina.  Í þriðja lagi hefur svo verið lagt til að ESB grípi til undirboðstolla til að jafna samkeppnisstöðu gagnvart þeim ríkjum sem ekki hafi tekið upp viðeigandi ráðstafanir til að draga úr útstreymi.

Í skýrslunni er dregið fram að ESB hefur einungis takmarkaða getu til að hafa áhrif á stefnumörkun annara ríkja. Til að hafa einhver áhrif þyrftu tollar að vera gríðarlega háir. Almennir tollar þyrftu að ná til 75% alls innflutnings til ESB og hefðu þau áhrif að draga úr kaupgetu almennings og fyrirtækja. Margoft hafi verið sýnt fram á skaðsemi verndartolla og að áhrif þeirra hafi einnig valdið skaða í þeim atvinnugreinum sem ætluninvar að vernda. Rakin eru dæmi um þetta. Önnur úrræði gagnvart einstökum greinum hefðu einungis léttvæg áhrif og engin ástæða fyrir önnur ríki að bregðast við slíkum úrræðum sem einungis hækka verðlag tiltekinna vara í ESB og draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja innan sambandsins. Umhverfisáhrifin yrðu lítil eða engin.

Gengur gegn almennu viðskiptafrelsi

Búast má við að önnur ríki líti svo á að fyrrgreindar ráðstafanir séu andstæðar almennu viðskiptafrelsi og grunnreglum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO). Hættan er því sú að önnur ríki grípi til aðgerða gagnvart útflutningsfyrirtækjum ESB. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig unnt er að búa þannig um hnútana að reglurnar getist staðst hlutlægt mat á þeim umhverfisáhrifum sem þeim er ætlað að hafa.

Smellið hér til að nálgast skýrsluna (PDF)

Samtök atvinnulífsins