Efnahagsmál - 

30. Oktober 2009

Viðræður að hefjast um atvinnuleysistryggingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Viðræður að hefjast um atvinnuleysistryggingar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, flutti í dag erindi á ársfundi Vinnumálastofnunar. Þar sagði hann m.a. að umræðan um nýtt fyrirkomulag atvinnuleysistrygginga væri rétt að hefjast og ýmsar útfærslur mögulegar. Ríkisstjórnin hafi ljáð máls á viðræðum en það væri grundvallarsjónarmið að þeir sem borgi beri meiri ábyrgð ásamt því að þeir sem fái þjónustuna komi að stjórnuninni. Fyrirkomulag trygginganna verði að vera þannig að þær feli í sér bæði hvata til árangurs og hagkvæmni. Þær hugmyndir sem rætt hafi verið um byggi ekki á því að hverfa aftur til eldra fyrirkomulags heldur að horfa til framtíðar.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, flutti í dag erindi á ársfundi Vinnumálastofnunar. Þar sagði hann m.a. að umræðan um nýtt fyrirkomulag atvinnuleysistrygginga væri rétt að hefjast og ýmsar útfærslur mögulegar. Ríkisstjórnin hafi ljáð máls á viðræðum en það væri grundvallarsjónarmið að þeir sem borgi beri meiri ábyrgð ásamt því að þeir sem fái þjónustuna komi að stjórnuninni. Fyrirkomulag trygginganna verði að vera þannig að þær feli í sér bæði hvata til árangurs og hagkvæmni. Þær hugmyndir sem rætt hafi verið um byggi ekki á því að hverfa aftur til eldra fyrirkomulags heldur að horfa til framtíðar.

Vilhjálmur sagði réttindakerfið áfram verða lögbundið og alla tryggða. Hugmyndirnar snúist um að atvinnuleysistryggingarsjóður flytjist úr ríkiskerfinu en verði í stað þess sjálfstæður sjóður með lögbundið hlutverk. Útgreiðslur bóta og öll bakvinnsla vegna fjármála verði miðlæg en verkefni slíks sjóðs yrðu m.a. þessi:

  • Yfirstjórn vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. vinnumiðlun.

  • Þróun, skipulagning og samræming starfa ráðgjafa.

  • Yfirumsjón með úrskurðum og staðfesting bráðabirgðaúrskurða.

  • Eftirlit með þjónustu ráðgjafa og þjónustuaðila.

  • Gerð þjónustusamninga við stéttarfélög og þjónustuaðila.

  • Eftirfylgni með tölusettum markmiðum og árangursmælingum.

  • Skipulagning samstarfs við vinnuveitendur og ráðningarstofur.

  • Eftirlit með misnotkun.

Vilhjálmur sagði að stéttarfélög yrðu helstu veitendur þjónustunnar til einstaklinga og gerðir yrðu þjónustusamningar við þau um verkefni. Ráðgjafar undir faglegri stjórn sjóðsins veiti fólki þjónustu en hugmyndin sé m.a. sú að efla vinnumiðlun, en það væri staðreynd að fyrirtæki hafi lítið notfært sér þá þjónustu Vinnumálastofnunar. Í stað vinnumarkaðsráða verði byggð upp og rekin stuðningsnet fyrirtækja, annarra vinnuveitenda og ráðningarstofa.

Vilhjálmur undirstrikaði að verði þessi leið farin verði leitað til starfsfólks Vinnumálastofnunar um að starfa áfram við atvinnuleysistryggingar en nýtt fyrirkomulag utan ríkiskerfisins bjóði upp á sveigjanlegri starfsemi. Vinnumálastofnun muni hins vegar áfram sinna ábyrgðarsjóði launa, fæðingarorlofssjóði, útgáfu atvinnuleyfa til útlendinga og eftirliti með vinnumarkaði og misnotkun ásamt því að úrskurða vegna kærumála.

Vilhjálmur sagði í niðurlagi erindisins ljóst að aðkoma aðila vinnumarkaðarins að samfélagslegum verkefnum hafi skilað árangri. Markmiðin með fyrrgreindum breytingum séu að tryggja betri og virkari þjónustu og meiri hagkvæmni. Hugmyndavinna sé á frumstigi en Samtök atvinnulífsins ásamt Alþýðusambandi Íslands muni hafa frumkvæði að þróun málsins.

Sjá nánar:

Glærur Vilhjálms Egilssonar

Samtök atvinnulífsins