Vinnumarkaður - 

26. Nóvember 2003

Viðbrögð SA koma fram í viðræðunum sjálfum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Viðbrögð SA koma fram í viðræðunum sjálfum

"Við munum núna taka þessa kröfugerð Starfsgreina-sambandsins til umræðu innan samtakanna og fjalla um hana í stjórn þeirra í næstu viku," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið.

"Við munum núna taka þessa kröfugerð Starfsgreina-sambandsins til umræðu innan samtakanna og fjalla um hana í stjórn þeirra í næstu viku," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að viðbrögð við kröfugerðinni sem slíkri í heild komi ekki fram fyrr en í samningaviðræðunum sjálfum, en ákveðið hefur verið að fyrsti fundurinn verði haldinn 9. desember. Það sé þannig of snemmt að úttala sig um hana, en það sé augljóst að hún sé hærri en nemur þeim kostnaðarhækkunum sem atvinnulíf býr við í nágrannalöndum okkar. Samtök atvinnulífsins hefðu talið heppilegt að halda sig innan þeirra marka meðal annars vegna þess að hlutfall launa í verðmætasköpuninni sé þegar orðið mjög hátt hér, bæði í sögulegu samhengi og í samanburði við það sem gerðist í öðrum löndum.

"Starfsgreinasambandið setur þetta fram af sinni hálfu sem hluta af stefnumörkun um að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu og vill horfa til langs tíma í samningsgerðinni og það er í sjálfu sér jákvætt innlegg þó töluvert beri á milli varðandi sýn á mögulega samningsniðurstöðu. Það er svo viðfangsefni komandi viðræðna að reyna að ná sameiginlegri lendingu," segir Ari ennfremur.

Samtök atvinnulífsins