Viðbrögð landsmanna ráða úrslitum

Þjóðhagsspá hefur nú verið endurskoðuð með tilliti til þróunar efnahagsmála frá því hún var síðast birt í mars sl. Þá liggja nú fyrir fyrstu drög að þjóðhagsspá fyrir árið 2002. Endurskoðaða þjóðhagsspá er að finna á vef Þjóðhagsstofnunar.

 

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, hætt við að óvissan sé fremur í þá átt að hagvaxtarspáin sé varfærin, líkurnar séu fremur í þá átt að hagvöxtur gæti orðið enn minni en spáin gerir ráð fyrir.  Fremur sé líklegt að hraðar dragi úr þjóðarútgjöldum en gert er ráð fyrir, bæði neyslu og fjárfestingum heimila og fjárfestingum fyrirtækja.  Það myndi á hinn bóginn draga hraðar úr viðskiptahalla en spáin gerir ráð fyrir en það gæti aftur leitt til styrkingar gengis krónunnar.

 

Hannes segir spánna almennt markast mjög af þeirri stöðu sem þjóðarbúið hefur komist í eftir mikla lækkun gengis krónunnar, og að það sé undir okkur komið hvort  verðlagskúfur undanfarinna mánaða jafni sig.

 

Það jákvæða við þessa spá er að að gert er ráð fyrir að verðbólga hjaðni hratt þegar líða tekur á árið og við komumst innan fárra mánaða niður á svipað stig og meðal viðskiptalandanna. "Ég held að sú mynd sem þessi spá dregur upp um þróunina það sem eftir lifir þessa árs og því næsta hljóti að leiða til þess, að fyrirtæki leiti enn frekari leiða til að auka framleiðni og hagkvæmni í rekstri," segir Hannes og bætir við að heimilin hljóti að draga úr eyðslu og laga skuldastöðu sína.  Slíkar aðgerðir myndu hafa jákvæð áhrif þegar fram í sækir, minnka viðskiptahalla og styrkja gengi krónunnar.  "Það eru nefnilega viðbrögð landsmanna sem ráða úrslitum um það, hver framvindan verður í verðbólgu- og gengismálum."

 

Það er einnig mat SA að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann gæti dregist meira saman en gert er ráð fyrir.  Ekki endilega vegna meiri verðbólgu en gert er ráð fyrir heldur vegna minni atvinnuþátttöku, styttri vinnutíma og meira atvinnuleysis.

 

Hlutur samneyslu í landsframleiðslunni hefur aukist mikið undanfarin ár þrátt fyrir mikinn hagvöxt.  Þegar hægir á hagvexti heldur samneyslan áfram að vaxa sem fyrr og eykur enn hlut sinn.  Þetta kemur vel í ljós í þessari spá, sbr. meðfylgjandi mynd og töflu.

 

Hlutur samneyslu í landsframleiðslu:

 

1997    21,5%

1998    22,1%

1999    22,9%

2000    23,7%

2001    24,4% (spá Þjóðhagsstofnunar)

2002    24,6% (spá Þjóðhagsstofnunar)