Við megum engan tíma missa

Bendikt Gíslason bankastjóri Arionbanka flutti erindi á Umhverfisdegi atvinnulífsins þann 14. október sl. og fjallaði um græna framtíð og stefnu bankans í umhverfismálum. Hann sagði bankann mikilvægan hlekk í hagkerfinu sem hafi mikil áhrif á hvert stefnir þegar kemur að aukinni sjálfbærni.

Hann fjallaði um risavaxinn vanda sem fylgir losun koldíoxíðs í andrúmsloftið og um áhrif þess að ganga um of á villta náttúru og raska jafnvægi vistkerfisins. Verkefnið er að draga úr losun um 8% á ári eða helminga hverjum áratug fram til 2050. Á Íslandi er stefnt að kolefnishlutleysi árið 2040.

„Við getum ekki hugsað þannig að við séum svo lítil að við höfum ekki áhrif - lítill banki eða lítið land. Við verðum öll að gera þetta saman til að ná árangri. Við megum engan tíma missa.“

Arionbanki setti sér umhverfisstefnu árið 2015 og hefur minnkað kolefnisfótsporið um 30% á fimm árum og ætla að ná 40% 2030. Húsnæði hefur verið minnkað, bílaflotinn rafvæddur að hluta, einungis verða keyptir nýorkubílar frá 2023 og samstarf hefur verið við Kolvið um kolefnisjöfnun rekstursins.

Starf bankans hefur áhrif á starfsfólk og viðskiptavini. Hann vitnaði í David Attenborough um mikilvægi þess að stýra fjármagninu til sjálfbærrar og ábatasamrar fjárfestingar. Fjöldi banka hefur skrifað undir meginreglur um ábyrgar fjárfestingar sem kynntar voru af Sameinuðu þjóðunum í fyrra. Arionbanki var einn af fyrstu bönkunum til að skrifa undir reglurnar. Bankar um allan heim þurfa að leggja áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og laga stefnu sína að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulaginu.

Benedikt fjallaði síðan um einstök verkefni bankans s.s. eignastýringu, græn innlán sem fjármagna græn bílaán, sérstök íbúðalán til umhverfisvottaðs húsnæðis. Gerð var úttekt á lánasafninu sem verður beitt til að meta kolefnisspor þess og hvernig draga megi úr því. Innkaupastefna tekur mið af umhverfisáhrifum vörunnar.

Hann nefndi góð dæmi  sem fjármagnaðar hafa verið innanlands m.a. hitaveituvæðingu, sjálfbærar veiðar, nýtingu jarðhita og orkuvinnslu og svo landgræðslu til að draga úr sandfoki. Þegar horft er fram á veginn eru tækifærin víða s.s vindorka, lágvarmavirkjanir, vetnisframleiðsla sem gæti gjörbreytt farm- og farþegaflutningum, kolefnisbinding, umhverfisvottaðar byggingar og sjálfbær ræktun matvæla. Markmiðið er að skapa alvöru hringrásarhagkerfi þar sem allt er nýtt og engu sóað.

Veita þarf fjármagninu í réttan farveg og veita jákvæðum þrýstingi út í samfélagið svo allir vandi sig við að draga úr neikvæðum áhrifum.

Að lokum sagði Benedikt: „Við getum ekki hugsað þannig að við séum svo lítil að við höfum ekki áhrif - lítill banki eða lítið land. Við verðum öll að gera þetta saman til að ná árangri. Við megum engan tíma missa.“

Hér má sjá erindi Benedikts í Sjónvarpi atvinnulífsins