1 MIN
Við gerum ekkert ein
1. maí kveðja frá SA.
Samstarf er forsenda framfara, við gerum ekkert ein. Sterk verkalýðshreyfing og sterk samtök atvinnurekenda gera samfélagið okkar enn betra. Sterkur vinnumarkaður hefur átt sinn þátt í því að byggja upp öflugt íslenskt hagkerfi og lífskjör sem eru á meðal þeirra bestu á heimsvísu.
Þau mál sem við tökumst á um eða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni fá mesta athygli en í dag er tilefni til þess að minna á styrkleika íslensks vinnumarkaðar og þann árangur sem íslensk verkalýðshreyfing í samstarfi við íslenska atvinnurekendur hefur náð undanfarna áratugi - þú semur nefnilega ekki við sjálfa þig.
Árangurinn af samstarfinu birtist ekki bara í gegnum ráðstöfunartekjurnar og velferðakerfin sparnaðinn sem rennur í lífeyrissjóðina, greiðslur í sjúkrasjóði, orlof og orlofsheimilasjóði, starfsendurhæfingarsjóði, starfsmenntasjóði og tryggingar sem grípa fólk þegar á þarf að halda, hvort sem er í atvinnumissi eða fæðingarorlofi.
Hann birtist í því að á Íslandi er atvinnuþátttaka mikil, sú mesta innan OECD, atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er jafnvel meiri en karla á hinum Norðurlöndunum. Atvinnuleysi er lítið, það minnsta á Norðurlöndunum og hlutfall ungs fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun er einna minnst innan OECD. Menntunarstig er hátt og hefur aukist, sífellt fleiri sækja sér sí- og endurmenntun. Atvinnuþátttaka innflytjenda er hvergi meiri innan OECD og íslenskur vinnumarkaður er mjög Evrópuvæddur. Einn af hverjum fjórum á vinnumarkaðinum er aðfluttur og 80% koma frá evrópska efnahagssvæðinu. Aðfluttir styðja við sterkan hagvöxt og stemma stigu við starfsmannaskorti í ýmsum atvinnugreinum, ekki síst hjá hinu opinbera.
Orðið atvinnulíf er alveg einstaklega fallegt, það nær bæði yfir fyrirtækin og fólkið sem hjá þeim starfar. Íslenskur vinnumarkaður er sterkur og grunnforsendan sem aldrei má gleyma er sú að það eru til einstaklingar sem hafa bæði kjark og getu til að fjárfesta í uppbyggingu fyrirtækja sem skapa störfin, það fólk fer ekki í kröfugöngu í dag en fagnar með sínu samstarfsfólki.
Verðmætasköpun byggir nefnilega á samstarfi og þú gerir ekkert ein.
Gleðilega hátíð!