Fréttir - 

01. Janúar 2021

Við áramót

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Við áramót

Enn og aftur eru Íslendingar minntir á óblíð náttúruöflin sem ollu þungum búsifjum á Seyðisfirði skömmu fyrir jól. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með æðruleysi og samstöðu íbúanna á erfiðum tímum.

Enn og aftur eru Íslendingar minntir á óblíð náttúruöflin sem ollu þungum búsifjum á Seyðisfirði skömmu fyrir jól. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með æðruleysi og samstöðu íbúanna á erfiðum tímum. 

Fyrir liggur að stjórnvöld munu styðja við uppbyggingu bæjarins og aðstoða íbúana eins og kostur er og öflugt atvinnulíf verður sem fyrr í hliðstæðum atburðum hluti af þeirri endurreisn sem framundan er.

 

Atburðirnir verða í miðri einni verstu samfélagsröskun og efnahagskreppu sem Ísland hefur gengið í gegnum á síðari tímum. Kreppu sem enn er ekki ljóst hvenær linnir. Kórónuveiran hefur leitt yfir heimsbyggðina heilsuvá sem á enga sína líka þótt mætir læknar hafi varað við því að hætta sem þessi væri til staðar. 

 

Á sama hátt og íbúarnir á Seyðisfirði hefur öll þjóðin sýnt samstöðu við að takmarka útbreiðslu veirunnar og fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda sem hafa verið mörgum þungbær. Árangurinn er sá að smit eru nú færri hér en í nálægum löndum.

Tækni og vísindi munu leiða okkur út úr þessum erfiðleikum og kreppunni mun ljúka smám saman þegar bólusetningu vindur fram bæði hér á landi og annars staðar. Stjórnvöld munu einskis láta ófreistað að tryggja að nægt bóluefni berist hratt og örugglega svo áhrif veirunnar fjari út hér á landi sem fyrst. Þau geta treyst á að einkafyrirtæki eru fús að leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið.

Hér á landi hefur efnahagssamdráttur orðið meiri en víða annars staðar, ördeyða hvílir yfir rekstri fjölmargra fyrirtækja og tugþúsundir landa okkar eru alveg eða að hluta án atvinnu. Kreppan bitnar þannig bæði á almenningi og fyrirtækjum.

Leiðin til uppbyggingar hagkerfisins að nýju er vel þekkt og grundvallast á frekari fjölbreytni og eflingu atvinnulífsins. Aukinn styrkur og fjölbreytni fæst með frumkvæði einstaklinga sem taka áhættu með stofnun eigin fyrirtækja og stunda nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn. Jafnframt þarf að koma til aukin fjárfesting, áhersla á menntun, vísindi, rannsóknir og markaðssókn. Allt þetta leiðir til aukinnar verðmætasköpunar.

Ný störf verða til, atvinnuleysi minnkar, skatttekjur ríkis og sveitarfélaga aukast – efnahagslífið kemst á skrið.

Undir alla þessa þætti geta stjórnvöld ýtt og hraðað þannig efnahagsbatanum.

 

Engin von er þó til þess að unnt sé að auka skattbyrði fólks og fyrirtækja. Leiðin til að auka skatttekjur ríkisins er styrkara atvinnulíf og aukin atvinna. Leiðin er ekki sú að skattleggja okkur út úr vandanum.

Íslendingar hafa áður sýnt að þeir geta unnið sig út úr kreppu með skynsamlegri og uppbyggilegri stefnu þar sem atvinnulífinu er treyst til að gera það sem það gerir best. Það er að skapa aukin verðmæti og útflutningstekjur.

 

Atvinnulífið vill vinna með stjórnvöldum bæði í viðureigninni við Covid-19 og að framtíðaruppbyggingu þar sem einstaklingsframtak, fjölbreytni og samvinna fær að njóta sín.

 

Samtök atvinnulífsins óska félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum nær og fjær góðs árs og friðar.

 

Eyjólfur Árni Rafnsson,
formaður Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins