26. janúar 2022

Viðvarandi skortur á vinnuafli til framtíðar

Hannes G. Sigurðsson

1 MIN

Viðvarandi skortur á vinnuafli til framtíðar

Hagvöxtur og aukin umsvif eru umfram náttúrulega fjölgun innlends vinnuafls, sem hefur í för með sér aukna þörf á innfluttu vinnuafli. Þróunin síðustu áratugi er á einn veg, fjölskyldur eignast færri börn og fleiri erlendir starfsmenn þurfa að flytja til landsins til að manna störf sem verða til.

Ljóst er að breytingar hafa átt sér stað á vinnumarkaði. Hagvöxtur og aukin umsvif eru umfram náttúrulega fjölgun innlends vinnuafls sem hefur í för með sér aukna þörf á innfluttu vinnuafli. Þróunin síðustu áratugi er á einn veg, fjölskyldur eignast færri börn og fleiri erlendir starfsmenn þurfa að flytja til landsins til að manna störf sem verða til.

Samband hagvaxtar og fjölgunar starfa

Á tímabilinu 2010-2021 jókst landsframleiðslan um 32%, eða 2,6% árlega. Á sama tíma fjölgaði starfandi fólki um 20%, eða um 1,7% árlega. Hver prósenta hagvaxtar stuðlaði þannig að 0,6% meðalfjölgun starfa á þessu tímabili, sem samsvarar 1.200 starfa fjölgun á ári. Náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri um þessar mundir, u.þ.b. 600 á ári, og fjölgun innlends starfsfólks um 500 miðað við 80% starfshlutfall, getur því einungis staðið undir 0,5% hagvexti og því þarfnast hagvöxtur umfram það aðfluttra einstaklinga til að sinna störfunum sem verða til.

Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður landsframleiðslan 13% hærri árið 2025 en árið 2021. Ef sambandið um 0,6% fjölgun starfa við hverja prósentu hagvaxtar helst áfram mun störfum fjölga um 15.000 á þessum fjórum árum. Starfandi íbúum mun fjölga um 3 þúsund en erlendum starfsmönnum um 12.000. Hlutfall erlendra starfsmanna af starfandi fólki á vinnumarkaði hækkar úr 21% í 24% Þetta er mun minni fjölgun en mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir. Í stað 2,5% hagvaxtar að jafnaði á árunum 2023-2025 samkvæmt þjóðhagsspánni þarf hagvöxtur að vera 4,5% ef miðspáin um fjölgun erlendra starfsmanna um 21.000 á næstu þremur árum á að rætast.

Lýðfræðilegar breytingar

Náttúruleg fjölgun fólks á vinnualdri hefur dvínað hratt undanfarin ár. Með náttúrulegri fjölgun er átt við árlega fjölgun íbúa á aldrinum 16-66 ára án tillits til flutninga að og frá landinu. Náttúruleg fjölgun hvers árs er skilgreind hér sem íbúafjölgun milli janúarmánaða samliggjandi ára, leiðrétt með búferlaflutningum fyrra árs.

Árleg náttúruleg fjölgun íbúa a vinnualdri hefur verið um 600 manns undanfarin tvö ár en var um 1.000 á ári síðasta áratug, þ.e. á árabilinu 2011-2020. Í hálfa öld þar á undan, á tímabilinu 1961-2010, var fjölgunin 2-3 þúsund árlega og náði hámarki á áratugnum 1971-1980, en var yfirleitt um og yfir 2 þúsund.

Árleg náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri er nú svipuð og fyrir 100 árum. Hlutfallsleg fjölgun er þó aðeins brot af því sem áður var. Fólki á vinnualdri fjölgaði að jafnaði um 2% árlega árin 1961-1990, um 1% árin 1991-2010, um 0,4% árin 2011-2020 og um 0,2% síðustu tvö ár.

Skýring minni náttúrulegrar fjölgunar fólks á vinnualdri liggur í lækkandi frjósemishlutfalli síðustu 70 árin. Á áratugnum 1951-1960 var hlutfallið 4,0, þ.e. á þeim áratug eignuðust konur að meðaltali 4 börn og þau börn tóku að teljast á vinnualdri árin 1970-1980. Frjósemishlutfallið lækkaði í tæplega 3,5 áratuginn 1961-1970, í rúmlega 2,5 árin 1971-1980 og var rúmlega tveir næstu þrjá áratugina þar á eftir, þ.e. 1981-2010.

Lítil fjölgun innlends starfsfólks bætt upp með aðfluttum

Á tímabilinu 2011-2021 fjölgaði starfandi fólki (skv. skrám) um 32.000 eða 20%. Á sama tíma var náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri 11.000 en miðað við 80% atvinnuþátttöku fjölgaði innlendum vinnufúsum einstaklingum aðeins um 9.000. Mismunurinn, 23 þúsund starfandi, fluttist hingað frá útlöndum. Það kemur vel heim og saman við að aðfluttir umfram brottflutta á vinnualdri voru 29.000 á þessu tímabili og miðað við 80% atvinnuþátttöku má ætla að aðfluttum, vinnufúsum einstaklingum hafi fjölgað um 23.000.

Sé litið til tímabilsins 2016-2020 kemur enn skýrar fram hversu vöxtur efnahagslífsins hefur verið háður aðfluttum erlendum starfsmönnum. Náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri var 3.300 á þessum fimm árum og miðað við 80% starfshlutfall fjölgaði vinnufúsum einstaklingum um 2.600. Á sama tíma fjölgaði aðfluttum einstaklingum á vinnualdri umfram brottflutta um 23.000 og miðað við 80% starfhlutfall má ætla að aðfluttum, vinnufúsum einstaklingum hafi fjölgað um 19.000.

Meðfylgjandi súlurit sýnir glöggt hvernig minnkandi fjölgun íbúa á vinnualdri hefur stuðlað að gífurlegri fjölgun erlendra starfsmanna. Á fyrsta áratug aldarinnar dugði íbúafjölgun til að manna helming fjölgunar starfa. Á árunum 2011 til 2015 var nettó brottflutningur frá landinu vegna ládeyðu í atvinnulífinu í kjölfar bankahrunsins. Á tímabilinu 2016-2020 var náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri aðeins 0,3% að jafnaði á ári en árleg fjölgun aðfluttra umfram brottflutta á vinnualdri var 2% að jafnaði. Náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri dugði því aðeins til að manna 15% þeirra starfa sem urðu til.

Mannfjöldaspá Hagstofu – innlendu starfsfólki fjölgar lítið næstu árin

Íbúafjölgun verður 43 þúsund á næstu fjórum árum, árin 2022-2025, samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar. Þar af fjölgar íbúum á vinnualdri, 16-66 ára, um 30 þúsund. Náttúruleg fjölgun íbúa á þessum aldri, þ.e. án aðflutnings frá útlöndum, verður þó aðeins fjögur þúsund en aðfluttum fjölgar um 26 þúsund. Miðað við 80% atvinnuþátttöku fjölgar innlendu starfsfólki aðeins um 3 þúsund en erlendu starfsfólki um 21 þúsund. Hlutfall erlendra starfsmanna af starfandi á vinnumarkaði hækkar úr 21% í 27% á þessum fjórum árum.

Hannes G. Sigurðsson

Ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar SA