Fréttir - 

28. nóvember 2014

Vextir lækki enn frekar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vextir lækki enn frekar

Verðbólga undanfarna 12 mánuði var aðeins 1% og minni en undangengin 16 ár. Stöðugt verðlag er mikið fagnaðarefni fyrir heimili og fyrirtæki og ber góðum árangri peningastefnu Seðlabankans og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði glöggt vitni.

Verðbólga undanfarna 12 mánuði var aðeins 1% og minni en undangengin 16 ár. Stöðugt verðlag er mikið fagnaðarefni fyrir heimili og fyrirtæki og ber góðum árangri peningastefnu Seðlabankans og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði glöggt vitni.

Í síðustu kjarasamningum var markmiðið að launahækkanir samrýmdust  verðstöðugleika til lengri tíma litið. Það hefur að mestu gengið eftir og verðbólga hefur farið hjaðnandi allt frá gerð samninganna fyrir nærri ári síðan. Kaupmáttur launa hefur á sama tíma aukist um nærri 5% að meðaltali. Það er langt umfram það sem forsendur eru fyrir. Meðalaukning kaupmáttar hér á landi undanfarin aldarfjórðung var 1,3% á ári, sem er bæði í samræmi við framleiðniþróun og það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.

Á sama tíma hefur peningastefna Seðlabankans skilað góðum árangri sem felst ekki síst í stöðugu  gengi krónunnar. Með auknum inngripum í gjaldeyrismarkaði hefur tekist að hemja árstíðabundnar sveiflur í gengi hennar sem valdið hafa  töluverðum sveiflum í verðlagi.

Þessi mikla hjöðnun verðbólgu gefur tilefni til frekari vaxtalækkana. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína fyrir skömmu um 0,25%. Sú verðlækkun sem varð í október felur í sér að virkir raunstýrivextir bankans hafa hækkað umtalsvert og eru nú komnir yfir 4%. Viðmið bankans hefur verið að raunvextir séu í kringum 3% þegar efnahagslífið fer úr slaka í spennu, eins og um þessar mundir. Ljóst er því að umtalsvert svigrúm hefur skapast fyrir vaxtalækkun. Mikilvægt er góður árangur í hagstjórn skili sér í lægri raunvöxtum og því er brýnt að Seðlabankinn lækki vexti enn frekar við næstu vaxtaákvörðun þann 10. desember næstkomandi.

Þessi jákvæða þróun er góð áminning um þann árangur sem unnt er að ná í baráttunni við verðbólguna ef rétt er á málum haldið. Þann lærdóm er mikilvægt að hafa í huga í aðdraganda næstu kjarasamninga og ekki síður við afgreiðslu fjárlaga nú. Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu er brýnt að ríkisvaldið sýni mikið aðhald í opinberum fjármálum til að glutra ekki niður  nýfengnum efnahagslegum stöðugleika.

Þorsteinn Víglundsson.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í nóvember 2014.

Samtök atvinnulífsins