Veruleg tekjuaukning af erlendum ferðamönnum

Í dreifibréfi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) kemur fram að veruleg tekjuaukning hafi orðið af erlendum ferðamönnum á síðasta ári. Heildartekjur þjóðarinnar af komu erlendra ferðamanna voru 37,7 milljarðar í fyrra, en voru 30,5 milljarðar árið 2000.  Að teknu tilliti til verðlagsþróunar innanlands var raunaukning tekna af ferðakostnaði innanlands um 20% og raunaukning fargjaldatekna um 12%, að því er fram kemur í dreifibréfinu. Þá styður tekjukönnun SAF meðal hótela upplýsingar um að megin fjölgunin hafi orðið utan háannar.

Talning ferðamanna
Ennfremur fagna samtökin því að talning ferðamanna eftir þjóðernum hafi nýlega verið hafin aftur í Leifsstöð, en henni var hætt í upphafi ársins 2001 vegna breyttra aðstæðna í flugstöðinni við gildistöku Schengen samkomulagsins. Meginkostur talningar eftir þjóðernum er að meta má viðbrögð við markaðsstarfi og hefur verið sérstaklega bagalegt að hafa ekki þessar upplýsingar síðasta árið vegna mikilla sviptinga á ferðamörkuðum. Fylgst er nú með fjölda þeirra 15 þjóðerna sem eru helstu markaðir íslenskrar ferðaþjónustu.

Sjá nánar í dreifibréfi SAF.