Efnahagsmál - 

15. Janúar 2008

Versnandi staða og óviss framtíð í atvinnulífi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Versnandi staða og óviss framtíð í atvinnulífi

Nú liggja fyrir niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og framtíðarhorfum hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Eru niðurstöður mun lakari en í samsvarandi könnunum undanfarin misseri. Þegar könnunin var gerð töldu um 42% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar, en í samsvarandi könnun fyrir ári síðan taldi um 74% stjórnenda að aðstæður væru góðar. Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru aðstæður mun lakari og fer óvissa um framtíðarhorfur vaxandi. Aðeins um 16% þátttökufyrirtækja búast við að aðstæður verði þá betri, um 41% búast við óbreyttum aðstæðum, en um 44% vænta verri aðstæðna. Þá fer umframeftirspurn eftir starfsfólki minnkandi. Vöxtur innlendrar eftirspurnar dregst saman, en meiri bjartsýni gætir um eftirspurn á erlendum mörkuðum. Stjórnendur fyrirtækjanna spá að meðaltali 3,6% verðbólgu næstu 12 mánuði. Tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 27. nóvember til 18. desember, en síðan þá hafa aðstæður á fjármálamörkuðum versnað verulega og lækkaði til dæmis úrvalsvísitalan um u.þ.b. 12% frá 19. desember til 11. janúar.

Nú liggja fyrir niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og framtíðarhorfum hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Eru niðurstöður mun lakari en í samsvarandi könnunum undanfarin misseri. Þegar könnunin var gerð töldu um 42%  stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar, en í samsvarandi könnun fyrir ári síðan taldi um 74% stjórnenda að aðstæður væru góðar. Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru aðstæður mun lakari og fer óvissa um framtíðarhorfur vaxandi. Aðeins um 16% þátttökufyrirtækja búast við að aðstæður verði þá betri, um 41% búast við óbreyttum aðstæðum, en um 44% vænta verri aðstæðna. Þá fer umframeftirspurn eftir starfsfólki minnkandi. Vöxtur innlendrar eftirspurnar dregst saman, en meiri bjartsýni gætir um eftirspurn á erlendum mörkuðum. Stjórnendur fyrirtækjanna spá að meðaltali 3,6% verðbólgu næstu 12 mánuði. Tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 27. nóvember til 18. desember, en síðan þá hafa aðstæður á fjármálamörkuðum versnað verulega og lækkaði til dæmis úrvalsvísitalan um u.þ.b. 12% frá 19. desember til 11. janúar.

Aðstæður í efnahagslífinu

Um 42% svarenda telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu góðar, um 18% telja þær slæmar en um 40% álita þær hvorki góðar né slæmar. Þótt stór hluti stjórnenda stærstu fyrirtækja telji þannig að aðstæður séu góðar, felast engu að síður í þessari niðurstöðu greinileg umskipti til hins verra frá hliðstæðum könnunum undanfarin misseri. Má sem dæmi nefna að í hliðstæðri könnun fyrir ári síðan var það mat 74% fyrirtækjanna að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar og aðeins 3% töldu þær slæmar.

Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru efnahagshorfur auk þess mun lakari og fara versnandi miðað við kannanir undanfarin misseri. Telja aðeins um 16% stjórnenda að aðstæður verði þá nokkuð betri, um 40% vænta óbreyttra aðstæðna, en um 44% búast við verri aðstæðum.

Niðurstöður úr könnuninni má draga saman í vísitölu efnahagslífsins*, sem sýnir mat fyrirtækja á núverandi efnahagsástandi og horfum eftir sex mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri. Af þessum upplýsingum má draga þá ályktun að þær hagstæðu aðstæður sem ríkt hafa í efnahagslífinu undanfarin 5 ár eða svo virðast nú á hverfanda hveli. Með hliðsjón af óróa og niðursveiflu á fjármálamörkuðum undanfarna daga er ljóst að aðstæður í atvinnulífinu hafa versnað frá því könnun þessi var gerð undir lok síðasta árs.

Vísitala efnahagslífsins

 Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu 

* Vísitalan er reiknuð þannig: [(# betri / (# betri + # verri)) * 200],

þar sem # = fjöldi fyrirtækja

Staða og horfur á vinnumarkaði

Könnunin gefur til kynna að spenna á vinnumarkaði fari heldur minnkandi. Um 58% fyrirtækja sem svöruðu könnuninni telja sig nú hafa nægjanlegt framboð starfsfólks en skortur er á starfsfólki hjá um 42% fyrirtækja. Um helmingur fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu telur sig skorta starfsfólk, en utan þess telja aðeins um 22% fyrirtækja að þau skorti starfsfólk. Eins og eftirfarandi mynd sýnir er það mismunandi eftir atvinnugreinum hve mikill skortur er á starfsfólki, en mestur er hann í ýmissi sérhæfðri þjónustu. Í fjármála- og tryggingastarfsemi er hins vegar að mestu nægt framboð vinnuafls.

Skortur á starfsfólki eftir landssvæðum og atvinnugreinum

Skortur á starfsfólki

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Um 34% fyrirtækja búast við að starfsmönnum fjölgi á næstu sex mánuðum, um 11% búast við fækkun en um 55% búast ekki við breytingu. Í þessu felast talsvert minni væntingar um fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum en kannanir fyrr á árinu 2007 sýndu. Fjölgunar er helst vænst í ýmissi sérhæfðri þjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi, verslun og byggingastarfsemi, en meira jafnvægi er í öðrum atvinnugreinum.

Innlend eftirspurn næstu sex mánuði

Um 33% fyrirtækja í könnuninni telja að innlend eftirspurn muni aukast nokkuð á næstu sex mánuðum, um 22% búast við minni eftirspurn en um 45% gera ráð fyrir óbreyttri eftirspurn. Í þessu felst minni bjartsýni um líklega þróun innlendrar eftirspurnar á næstu sex mánuðum en fram hefur komið í könnunum um sama efni undanfarin misseri, eins og eftirfarandi mynd ber með sér, en myndin sýnir hvernig væntingar um innlenda eftirspurn næstu sex mánuði hafa þróast undanfarin þrjú ár. Í kjölfar óvissu í efnahagslífinu vorið 2006 dró mjög úr bjartsýni. Að öðru leyti hafa horfur almennt verið taldar góðar um þróun innlendrar eftirspurnar. Greinilega hefur þó dregið úr bjartsýni síðustu mánuði og er útlitið nú ennþá lakara en vorið 2006.

Horfur um innlenda eftirspurn næstu sex mánuði

Horfur um innlenda eftirspurn

Væntingar um samdrátt í innlendri eftirspurn næstu sex mánuði koma einkum fram í iðnaði og byggingastarfsemi, en betri horfur koma fram í þjónustu, verslun, fjármálastarfsemi, samgöngum og ferðaþjónustu.

Áætlun um breytingu á innlendri eftirspurn næstu sex mánuði

Áætlun um innlenda eftirspurn

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Erlend eftirspurn næstu sex mánuði

Horfur um eftirspurn í útflutningsstarfsemi eru almennt jákvæðar. Um 68% fyrirtækja sem svöruðu spurningu um erlenda eftirspurn telja að hún muni aukast á næstu sex mánuðum, um 29% búast við óbreyttu ástandi en aðeins 3% vænta samdráttar.

Áætlun um erlenda eftirspurn næstu sex mánuði

Áætlun um erlenda eftirspurn

Í sjávarútvegi gera um 16% fyrirtækja ráð fyrir að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast mikið næstu sex mánuði og um 52% að hún muni aukast nokkuð, um 32% telja að eftirspurn standi í stað, en ekkert fyrirtækjanna býst við minni eftirspurn. Í iðnaði og framleiðslu eru horfur um erlenda eftirspurn aðeins blendnari, þar sem um 12% fyrirtækjanna búast við að hún minnki. Um 41% fyrirtækjanna búast þó við að erlend eftirspurn aukist nokkuð og um 6% að hún aukist mikið, en um 41% búast við að eftirspurn standi í stað.

EBITDA-framlegð

Í könnuninni er spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Í heild er niðurstaðan jákvæð og telja um 55% fyrirtækjanna að framlegð hafi aukist, 21% að hún hafi dregist saman, en staðan var óbreytt hjá um 24% þátttakenda.

Þegar spurt er um líklegar breytingar á framlegð sex mánuði fram í tímann er staðan hins vegar lakari. Telja um 35% svarenda að framlegð muni aukast, um 40% búast við að hún muni standa í stað, en um 25% álíta að hún muni minnka. Eins og eftirfarandi mynd sýnir hafa horfur um breytingar á framlegð á næstu sex mánuðum farið versnandi þegar borið er saman við niðurstöður í fyrri könnunum.

Áætlun um breytingar á framlegð næstu sex mánuði

Áætlun um breytingar á framlegð

Verðbólguspá

Stjórnendur fyrirtækjanna voru beðnir að spá fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs. Er niðurstaðan sú að þeir spá að meðaltali 3,6% verðbólgu næstu 12 mánuði. Þetta felur í sér mikla lækkun á verðbólgu, þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9% síðastliðna 12 mánuði.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 27. nóvember til 18. desember 2007 og með einfaldara sniði með 9 spurningum. Í upphaflegu úrtaki voru 400 stærstu fyrirtæki landsins miðað við heildarlaun, en í endanlegu úrtaki voru 370 fyrirtæki. Svarhlutfall var 50,8%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðila að könnuninni á niðurstöðum hennar.

Sjá nánar:

Skýrsla Capacent Gallup um niðurstöðu könnunarinnar (PDF)

Samtök atvinnulífsins