1 MIN
Verkfall Eflingar nær ekki til félagsmanna annarra stéttarfélaga
Verkfall hófst á sjö tilgreindum hótelum Íslandshótela ehf. og Fosshótels Reykjavíkur ehf. og sem starfar eftir kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins um vinnu í veitinga- og gistihúsum á þriðjudaginn var. Að öllu óbreyttu hefjast verkföll á fleiri hótelum miðvikudaginn 15. febrúar.
Verkfallsboðunin nær til félagsfólks Eflingar á sjö tilgreindum hótelum Íslandshótela ehf. og Fosshótels Reykjavíkur ehf. og sem starfar eftir kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins um vinnu í veitinga- og gistihúsum. Verkfallsboðunin nær ekki til starfsfólks sem starfar eftir öðrum kjarasamningum SA við Eflingu eða önnur stéttarfélög. Hjá Íslandshótelum eru í starfi t.d.faglærðir matreiðslumenn og þjónar, starfsfólk í gestamóttöku og stjórnendur sem starfa allir eftir öðrum kjarasamningum. Búið er að ganga frá kjarasamningum vegna umrædds starfsfólks sem heldur áfram sínum daglegu störfum eins og aðrir launamenn á vinnumarkaði semverkfallið nær ekki til.
Efling heldur því fram að enginn geti gengið í störf verkfallsmanna. Sú fullyrðing er röng en eigendur, fjölskyldumeðlimir og stjórnendur geta m.a. gengið í störf Eflingarfólks í verkfalli.
Verkfallsverðir hafa áreitt og sýnt ógnandi hegðun við gesti og starfsfólk Íslandshótela sem eru að sinna sínum lögmætu störfum. Verkfallsverðir hafa engar heimildir í lögum eða kjarasamningum til þess að fara inn í atvinnuhúsnæði án leyfis eiganda. Ef ákveðið er að hleypa verkfallsvörðum inn í húsakynni fyrirtækja verður að gera þá lágmarkskröfu til þeirra að þeir sýni starfsfólki og viðskiptavinum virðingu og mannasiði.
Á vinnumarkaðsvef Samtaka atvinnulífsins geta félagsmenn Samtaka atvinnulífsins nálgast leiðbeiningar um hvaða reglur gilda í verkfalli.