Vinnumarkaður - 

22. febrúar 2023

Verkbann er neyðarúrræði

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Verkbann er neyðarúrræði

Viðræður í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hafa engu skilað. Nú hefur viðræðum Samtaka atvinnulífsins við Eflingu verið slitið í annað sinn og engin lausn er í sjónmáli. Í ljósi árangurslausra viðræðna hefur stjórn SA samþykkt einróma að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í Eflingu sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi og veitinga- og gistingahúsasamningi SA og Eflingar.

Sú ákvörðun var hvorki einföld né léttbær. Ákvörðun um að boða til verkbanns var tekin að vel ígrunduðu máli enda munu umsvifamikil verkföll Eflingar lama íslenskt samfélag að stórum hluta og valda gríðarlegum kostnaði. Ábyrgðar okkar vegna getum við ekki leyft verkföllum Eflingar að taka samfélagið úr sambandi eftir úthugsuðum leiðum forystu Eflingar. Við verðum að geta náð stjórn á framkvæmd þessara verkfalla og verkbann er það tæki sem vinnulöggjöfin veitir okkur og er fyrst og fremst varnaraðgerð og síðasta úrræði okkar í kjaradeilu við Eflingu.

Verkbann er neyðarúrræði atvinnurekenda og er ætlað að lágmarka tjón atvinnulífsins vegna verkfalla Eflingar. Í stað þess að Efling raski starfsemi tiltekinna fyrirtækja eða heilu atvinnugreinanna með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni auka þrýsting á Eflingu til að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum.

Nú þegar hefur reynt á þanþol þess samningsramma sem legið hefur fyrir. Það eru hvorki haldbær rök né sátt í samfélaginu um að félagsmenn Eflingar eigi að fá meiri hækkanir en aðrir hópar. Stuttum kjarasamningum er ætlað að bregðast við mikilli verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og langvarandi verðbólgutímum á Íslandi. Slíkir tímar eru enn í fersku minni eldri kynslóða og þá viljum við ekki endurtaka.

Samtök atvinnulífsins hafa sýnt ríkan samningsvilja en geta ekki teygt sig lengra án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir. Að baki þeim standa tæplega 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði og trúnaður Samtaka atvinnulífsins liggur meðal annars hjá þessum hópi.

Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri hækkanir en aðrir er því miður óaðgengileg. Samtökum atvinnulífsins er því nauðugur sá kostur að grípa til þeirra varnaraðgerða sem vinnulöggjöfin heimilar. Ábyrgð SA er mikil og fordæmalaus staða kallar á fordæmalausar aðgerðir.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri SA