Fréttir - 

01. Júní 2017

Verjum kaupmáttaraukninguna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verjum kaupmáttaraukninguna

Kjarasamningar næstu missera munu ákvarða efnahagslegar aðstæður næstu ára. Það er ábyrgðarhlutur sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir. Vegna hagstæðra viðskiptakjara og styrkingar krónunnar hafa 20% launahækkanir frá ársbyrjun 2015 ekki skilað sér í aukinni verðbólgu. Nú er von að menn spyrji hvort það sé viðvarandi ástand.

Kjarasamningar næstu missera munu ákvarða efnahagslegar aðstæður næstu ára. Það er ábyrgðarhlutur sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir. Vegna hagstæðra viðskiptakjara og styrkingar krónunnar hafa 20% launahækkanir frá ársbyrjun 2015 ekki skilað sér í aukinni verðbólgu. Nú er von að menn spyrji hvort það sé viðvarandi ástand.

Stutta svarið er nei því miður. Launahækkanir umfram þá verðmætasköpun sem á sér stað á sama tíma í hagkerfinu munu leiða til verðbólgu. Hagkerfið hefur að undanförnu verið í leit að nýju jafnvægi vegna undirliggjandi breytinga samfara viðvarandi gjaldeyrisinnflæði, m.a. vegna vaxandi ferðaþjónustu.

Frá undirritun kjarasamninga á almennum markaði fyrir tveimur árum síðan hefur kaupmáttur verið sögulega mikill. Við höfum tekið út kaupmáttaraukningu heils áratugar á tveimur árum.

Sú breyting er einskiptisaðgerð í eðli sínu og vann gegn verðbólguáhrifum síðustu kjarasamninga. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Kaupmáttur launa hefur að meðaltali aukist um 15% á undanförnum tveimur árum. Færa má sterk rök fyrir því að nýju jafnvægi þjóðarbúsins megi viðhalda við lægri raunvexti en áður. Þjóðhagslegur sparnaður hefur aukist, verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í 40 mánuði, auk þess sem raunvextir í okkar heimshluta eru í sögulegu lágmarki.

Niðurstaða kjarasamninga næstu missera mun skipta sköpum um efnahagslega þróun á Íslandi næstu ár.

Til lengri tíma getur kaupmáttur ekki vaxið meira en framleiðni í efnahagslífinu. Launahækkanir umfram getu atvinnulífsins til að taka á sig aukinn kostnað valda verðbólgu. Hækkun raungengis vegna mikillar verðbólgu er ekki sjálfbær og stuðlar að viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Það gerðist síðast á uppgangsárunum 2001-2007 og hefur oft gerst áður. Ójafnvægi myndast sem að lokum leiðréttist með gengisfalli krónunnar. Sú nálgun er fullreynd og finna má mýmörg dæmi um hana í hagsögu Íslands.

Ekkert verður til úr engu. Undirstaðan er að tryggja samkeppnisstöðu útflutningsgreina og byggja upp kaupmátt launa við sjálfbært raungengi. Eina leiðin til að bæta lífskjör til langframa er að byggja á traustum stoðum sem samræmast ytri jöfnuði og forðast efnahagsskelli fortíðar.

Frá síðustu aldamótum hefur framleiðnivöxtur hagkerfisins einungis á þremur árum af sautján verið umfram launahækkanir. Þrálát verðbólga hefur verið fylgifiskur þessarar þróunar. Frá árinu 2014 hafa laun hækkað langt umfram framleiðnivöxt í hagkerfinu. Styrking krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og sögulega hagstæð viðskiptakjör á sama tíma hafa hins vegar haldið verðbólgu niðri. Sú forsenda mun ekki halda til lengri tíma og það er óábyrgt að treysta á það.

Tækifærið framundan er risavaxið. Aðferðafræði fortíðar er fullreynd. Frá árinu 1994 hafa árlegar launahækkanir á Íslandi að meðaltali verið 6,5% en á sama tíma hefur verðlag hækkað að meðaltali um 5% á ári. Kaupmáttaraukning hefur því að meðaltali verið 1,4% á ári. Norðurlöndin hafa hækkað laun minna en vegna minni verðbólgu hefur kaupmáttaraukningin þar verið svipuð og á Íslandi. Aftur á móti hefur vaxtastigið á Íslandi verið mun hærra vegna mikillar verðbólgu.

Frá undirritun kjarasamninga á almennum markaði fyrir tveimur árum síðan hefur kaupmáttur verið sögulega mikill. Við höfum tekið út kaupmáttaraukningu heils áratugar á tveimur árum.Verkefni komandi kjarasamninga er að verja þessa kaupmáttaraukningu.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í maí 2017.

Samtök atvinnulífsins