Efnahagsmál - 

28. Desember 2012

Verðum að nýta tækifærin 2013

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðum að nýta tækifærin 2013

Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem getur tekist á við krefjandi verkefni. Það sýnir sagan okkur og þrátt fyrir erfiðar aðstæður í atvinnulífinu nú um stundir eru dæmi um fjölmörg jákvæð verkefni hjá íslenskum fyrirtækjum sem vinna að því hörðum höndum að skapa fleiri og betri störf á Íslandi. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA m.a. í áramótauppgjöri Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem getur tekist á við krefjandi verkefni. Það sýnir sagan okkur og þrátt fyrir erfiðar aðstæður í atvinnulífinu nú um stundir eru dæmi um fjölmörg jákvæð verkefni hjá íslenskum fyrirtækjum sem vinna að því hörðum höndum að skapa fleiri og betri störf á Íslandi. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA m.a. í áramótauppgjöri Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Vilhjálmur segir þó að  því miður virðist þjóðin föst í sama farinu og illa gangi að rífa okkur upp úr hjólförum kreppunnar en það sé vel hægt ef viljinn er fyrir hendi. Hlutirnir gætu gengið miklu betur fyrir sig, atvinnuleysi gæti verið hér lægra, verðbólga minni og lífskjör betri. Því sé mikilvægt að nýta þau tækifæri sem blasi við á nýju ári til að sækja fram.

Vilhjálmur segir atvinnuleysið á Íslandi allt of hátt og það hafi lækkað fyrst og fremst vegna þess að fólk hafi horfið af vinnumarkaði eð leitað tækifæra á erlendum vettvangi. Störfum fjölgi sáralítið. Í því ljósi sé athyglisvert að allmörg fyrirtæki á Íslandi séu í vandræðum með að fá rétta fólkið til starfa, að hluta til vegna þess að margir með mikilvæga sérþekkingu eru fluttir úr landi og hins vegar vegna þess að fólk hefur ekki menntað sig á þeim sviðum þar sem mikil eftirspurn er eftir fólki í atvinnulífinu, t.a.m. í tækni- og raungreinum.

Stór hópur fólks á Íslandi hefur verið atvinnulaus í langan tíma en framundan er stórátak þar sem atvinnulífið leikur lykilhlutverk í að útvega fólkinu störf á nýjan leik og veita þeim tækifæri til að taka þátt á vinnumarkaði á nýjan leik. Þetta mun reynast atvinnulífinu mikilvægur liðsstyrkur. Vilhjálmur bendir á að atvinnulífið beri kostnaðinn af atvinnuleysinu og það sé betra fyrir alla að borga fólki fyrir að vinna heldur en að sitja hjá.

Aðspurður um mikilvægustu verkefnin á nýju ári segir Vilhjálmur að það sé að stórauka fjárfestingar í atvinnulífinu á Íslandi, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, það sé lykillinn að því að snúa blaðinu við ásamt því að lækka verðbólgu, auka kaupmátt og afnema gjaldeyrishöft. Þá bindi hann miklar vonir við að atvinnulífinu og stjórnvöldum auðnist að vinna betur saman að afloknum alþingiskosningum næsta vor.

Tryggja verði á nýju ári að Ísland verði samkeppnishæft um fólk og fyrirtæki sem velji Ísland sem sína heimahöfn.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á vef Vísis.

Smelltu hér til að hlusta

Samtök atvinnulífsins