Efnahagsmál - 

15. Janúar 2013

Verðum að liði (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verðum að liði (1)

Samtök atvinnulífsins taka þátt í átakinu Liðsstyrk sem hefst formlega í dag. Í samstarfi við stéttarfélög og Atvinnuleysistryggingasjóð stefna almenni vinnumarkaðurinn, sveitarfélög og ríki að því markmiði að skapa 2.200 ný störf til a.m.k. 6 mánaða fyrir þá atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta bótarétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013.Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmenn sína til að verða að liði eftir því sem aðstæður leyfa. Með samstilltu átaki munu markmiðin nást. Átakið gefur fyrirtækjum tækifæri til að taka þátt í verkefni sem mun koma öllu samfélaginu til góða.

Samtök atvinnulífsins taka þátt í átakinu Liðsstyrk sem hefst formlega í dag. Í samstarfi við stéttarfélög og Atvinnuleysistryggingasjóð stefna almenni vinnumarkaðurinn, sveitarfélög og ríki að því markmiði að skapa 2.200 ný störf til a.m.k. 6 mánaða fyrir þá atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta bótarétt sinn hjá Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013.Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmenn sína til að verða að liði eftir því sem aðstæður leyfa. Með samstilltu átaki munu markmiðin nást. Átakið gefur fyrirtækjum tækifæri til að taka þátt í verkefni sem mun koma öllu samfélaginu til góða.

Markmið átaksins er að virkja það fólk til vinnu sem lengi hefur verið atvinnulaust en vill og getur unnið. Samtöl við stjórnendur fyrirtækja gefa til kynna að víða séu óunnin verk og þörf fyrir starfsfólk á mörgum sviðum. Til að hvetja fyrirtæki til að ráða þennan hóp einstaklinga til vinnu mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða þeim jafnvirði fullra bóta í 6 mánuði m.v. fullt starf ef ráðningin á sér stað fyrir 1. apríl 2013. Ef ráðning á sér stað í apríl eða maí þá fá fyrirtæki greiddar 90% af bótum og 80% ef ráðið er í nýtt starf eftir 1. júní nk.

Skilyrði þess að atvinnurekandi fái styrk með starfi eru einföld og skýr:

  • Ráðning viðkomandi atvinnuleitanda feli í sér aukningu á starfsmannafjölda.

  • Fyrirtæki hafi að minnsta kosti einn starfsmann á launaskrá.

  • Fyrirtæki hafi síðastliðna sex mánuði ekki sagt starfsmönnum upp sem gegnt höfðu starfinu sem ráða á í.

  • Ráðning feli ekki í sér verulega röskun á samkeppni innan atvinnugreinar á viðkomandi svæðis.

  • Staðfesting á launagreiðslu til starfsmanns fylgi með reikningi til Vinnumálastofnunar vegna greiðslu styrks á grundvelli samnings um Liðsstyrk.

  • Samningur um Liðsstyrk, ráðningarviðtalsblað og afrit ráðningarsamnings hafi borist vinnumiðlara frá atvinnurekanda.

Reynslan sýnir að stór hluti þess fólks sem ráðið er til reynslu eða starfsþjálfunar með þessum hætti kemst í varanlegt starf í framhaldi af því.

Fyrirtæki sem taka þátt í átakinu geta skráð störfin ásamt lýsingu á þekkingu og reynslu sem starfsmaður þarf yfir að búa í starfagrunn á heimasíðu átaksins http://www.lidsstyrkur.is/ eða haft beint samband við ráðgjafa VMST (http://www.vmst.is/) eða STARFS (http://www.starfid.is/). Ráðgjafi mun senda viðkomandi fyrirtæki nöfn nokkurra einstaklinga sem best eru taldir uppfylla þau skilyrði, enda hafi þeir áður farið í greiningarviðtal.

Frekari upplýsingar um átakið fást hjá starfsmanni SA, Hjörleifi Þórðarsyni (hjorleifur@sa.is) í síma  591-0007 og á heimasíðu átaksins http://www.lidsstyrkur.is/. Hjörleifur mun á næstu dögum kynna verkefnið nánar fyrir fyrirtækjum og veita leiðbeiningar um möguleika fyrirtækja til þátttöku. Einnig geta fyrirtæki haft beint samband við hann að afla nánari upplýsinga.

Samtök atvinnulífsins