Verðtryggð lán heimilanna gætu hækkað um hundruð milljarða

Höfuðstóll verðtryggðra skulda heimilanna gæti hækkað um allt að 335 milljarða króna til ársloka 2018 samkvæmt nýrri sviðsmynd Samtaka atvinnulífsins. Forsendur hennar gera ráð fyrir því að niðurstaða gerðardóms fyrir BHM og FÍH gangi yfir allan vinnumarkaðinn. Það felur í sér um 30% hækkun kauptaxta frá ársbyrjun 2015 til ársloka 2018. Til viðbótar kemur launamyndun vegna starfaldurshækkana, starfsþróunar og fleira. Verði gengi krónunnar haldið föstu gæti verðbólga orðið allt að 6% á tímabilinu, en ef gengi krónunnar sígur gæti verðbólga farið upp í  9% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað mikið á skömmum tíma.

undefined

Áhrif á óverðtryggð lán yrðu einnig mikil, en vaxtabyrði á 15 milljóna óverðtryggðu láni myndi hækka um 55 þúsund krónur á mánuði á samningstíma kjarasamninganna miðað við óbreytt aðhaldsstig peningastefnunnar.

undefined

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld samtökin hafa miklar  áhyggjur af því að þessi sviðsmynd geti ræst.

undefined

 

Slæmu fréttirnar eru þó þær að staðan gæti orðið enn verri samkvæmt annarri sviðsmynd sem Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman.

Samkvæmt henni gæti höfuðstóll verðtryggðra skulda heimilanna hækkað um allt að 475 milljarða króna til ársloka 2018. Sviðsmyndin gerir ráð fyrir árlegri víxlverkun launahækkana mismunandi hópa á vinnumarkaði, þannig að almenni markaðurinn fái viðbótarhækkanir vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna og þeir síðarnefndu fái launahækkanir í framhaldinu vegna launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Sviðsmyndin gerir ráð fyrir að launahækkanir geti orðið á bilinu 45-50% til ársloka 2018. Verði gengi krónunnar haldið föstu gæti verðbólga orðið allt að 9% á tímabilinu, en ef gengi krónunnar sígur gæti verðbólga farið yfir 12% m.v. þessa sviðsmynd. Vaxtabyrði á 15 milljóna óverðtryggðu láni myndi hækka um 77 þúsund krónur á mánuði á tímabilinu.

undefined

Fyrrgreindar sviðsmyndir hafa verið kynntar SALEK-hópnum svokallaða sem hefur unnið að því undanfarin þrjú ár að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi. Í sameiginlegu minnisblaði hagfræðinga sem starfa hjá heildarsamtökunum á vinnumarkaðnum (ASÍ, BHM, BSRB, KÍ og SA), fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sambandi sveitarfélaga, kemur fram að ef ekki verði brugðist við muni verðbólga vaxa, vextir hækka og gengi krónunnar falla.

Framkvæmdastjóri SA segir vinnu SALEK-hópsins sem slitnaði upp úr á dögunum meðal tækja sem hægt sé að nota til að vinda ofan af stöðunni.  „Það hlýtur að vera sameiginleg ábyrgð okkar allra að halda þeim viðræðum áfram með það að marki að það verður að lágmarka skaðann. Þetta snýst ekki um launahagsmuni einstakra hópa heldur þjóðhagslegan stöðugleika.“

Einnig var fjallað um málið í Kastljósi RÚV í kvöld þar sem var rætt við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA um forsendur sviðsmyndanna. Aðspurð sagði hún að því miður geti illa farið ef ekki verði brugðist við en þær launahækkanir sem samið hafi verið um að undanförnu samræmist ekki framleiðniaukningu í hagkerfinu. Stöðugleikanum sé ógnað.

Sjá nánari umfjöllun RÚV hér að neðan:

Kvöldfréttir RÚV – rætt við Þorstein Víglundsson

Kastljós RÚV – rætt við Ásdísi Kristjánsdóttur