Verðmætasköpun hvílir á vexti útflutningsgreina

Are Icelanders really only 348.000? Líklega höfum við flest öll fengið svipaða spurningu. Það er ekki að ástæðulausu; danska þjóðin er 17 sinnum fjölmennari en sú íslenska og sú þýska 238 sinnum fjölmennari, svo dæmi séu tekin.

Ísland er örsmá eyja í miðju Atlantshafi. Við, eins og önnur smáríki, erum háð því að eiga viðskipti við önnur ríki og skiptir því samkeppnishæfni gríðarlegu máli og ákvarðar lífskjör landsmanna. Það kemur ef til vill ekki á óvart að það er sterk fylgni milli samkeppnishæfni og lífskjara þjóða. Samkeppnishæfni er skilgreind út frá mörgum mismunandi mælikvörðum, allt frá menntunarstigi til mælikvarða á lífsfyllingu. Ísland stendur vel á mörgum sviðum; menntunar- og atvinnustig er hátt, atvinnuleysi lágt og atvinnuþátttaka mikil, og þá er atvinnuþátttaka kvenna ein sú mesta í heimi. Tekjujöfnuður er hvergi meiri en á Íslandi; meðallaun og lágmarkslaun eru þau hæstu meðal OECD ríkja, jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir háu íslensku verðlagi. Við berum jafnframt gæfu til, umfram mörg önnur ríki,að vera auðlindaríkt land þar sem tekist hefur að byggja upp sterkar útflutningsgreinar sem standa framarlega í alþjóðlegum samanburði. Útflutningsgreinarnar skapa ekki aðeins fjölbreytt störf heldur skila einnig gríðarlegum verðmætum til þjóðarbúsins.

Efnahagsbatinn vekur heimsathygli
Eftir eina alvarlegustu efnahagskrísu Íslandssögunnar hefur efnahagsbatinn verið undraverður. Það eru ekki nema tíu ár síðan Ísland varð nánast greiðsluþrota og þurfti að leita aðstoðar erlendis frá og setja á fjármagnshöft. Líklega hefði engin trúað því árið 2008 að hrein erlend eignastaða þjóðarbúsins yrði 260 milljarðar króna tíu árum síðar. Á sama tíma og evrusvæðið hefur verið að glíma við veikan efnahagsbata hefur sterkur efnahagsbati á Íslandi vakið heimsathygli. Það er óumdeilt að árangurinn hefur verið hreint ótrúlegur, uppsafnaður hagvöxtur síðustu átta ára er rúmlega 33%. Jafnframt hafa ráðstöfunartekjur heimila á föstu verðlagi vaxið um 43% og atvinnuleysi hefur nánast horfið. Slíkur efnahagsbati hefur ekki aðeins skilað sér í vaxandi tekjum til heimila og fyrirtækja heldur hefur hið opinbera notið góðs af því í formi aukinna skatttekna. Afkoma hins opinbera er jákvæð, ólíkt mörgum ríkjum sem eru enn að glíma við halla á opinberum rekstri og vaxandi skuldir.

En viðsnúningur sem þessi  kemur ekki af sjálfum sér. Efnahagsþróunin hefði vel getað þróast á annan veg og til hins verra. Útflutningsgreinarnar hafa leikið lykilhlutverk í þessum efnahagsbata og verið drifkraftur hagvaxtar, leiddar af vexti ferðaþjónustunnar. Gjaldeyristekjur Íslands af vöru- og þjónustuviðskiptum námu ríflega 1.200 milljörðum króna á síðasta ári eða rúmlega helmingnum af allri verðmætasköpun á Íslandi. Hér hefur verið viðskiptaafgangur og því ekki verið þörf á erlendri skuldasöfnun, ólíkt fyrri hagvaxtarskeiðum sem oftar en ekki hafa einkennst af viðskiptahalla – líkt og árin 2004 - 2007. Núverandi hagvaxtarskeið endurspeglar ef til vill einna best hversu mikilvægt það er að verja samkeppnisstöðu þjóðarbúsins og að tryggja að útflutningsgreinar séu leiðandi í hagvexti framtíðarinnar.

1.000 milljarða króna áskorun
Eftir átta ára samfelldan hagvöxt eru nú blikur á lofti og aðlögun framundan í efnahagslífinu. Þótt hægi nú á vexti hagkerfisins stendur það  á traustum grunni og  standa útflutningsgreinar enn undir mestri verðmætasköpun hagkerfisins – áframhaldandi velgengni okkar byggist á því að vöxtur þeirra sé tryggður og staðið sé vörð um samkeppnisstöðu þjóðarbúsins.

Eigi íslenska hagkerfið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi, þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það gera um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku. Til þess að setja þessar stærðir í samhengi þá er 50 milljarða króna árleg aukning viðlíka vöxtur og sá sem ferðaþjónustan hefur tekið út á síðastliðnum átta  árum.

Samkeppnishæft rekstrarumhverfi er forsenda þess að hér dafni blómlegt atvinnulíf og að okkur takist að skapa 50 milljarða króna í nýjum gjaldeyristekjum á hverju ári næstu 20 árin. Við stöndum vel á mörgum vígstöðum þegar kemur að samkeppnishæfninni en þó getum við víða gert betur og eru hér nefnd þrjú dæmi.

1. Skattar eru háir á Íslandi og erum við háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008 lögðu mörg ríki áherslu á að draga úr skattheimtu en hér var því öfugt farið, skattheimtan jókst á bæði heimili og fyrirtæki. Í dag eru nýir skattar og þær skattahækkanir sem gerðar hafa verið eftir árið 2008 að skila ríkissjóði 100 milljörðum króna árlega í viðbótartekjur. Stjórnvöld geta lagt sitt af mörkum og dregið til baka þessar skattahækkanir og er enginn tími betri en nú þegar blikur eru á lofti í íslensku efnahagslífi.

2. Íþyngjandi og ósveigjanlegt regluverk og aðrar opinberar kvaðir geta einnig hamlað nýsköpun og fjárfestingu og þar með haft neikvæð áhrif á framleiðni og verðmætasköpun. Samkvæmt nýju mati frá Alþjóðabankanum stendur Ísland verst meðal Norðurlandanna þegar kemur að samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi (e. Ease of Doing Business). Hér er sannkallað rými til úrbóta.

3. Óumdeilt er á Norðurlöndunum að efnahagsleg velsæld byggi á vexti útflutningsgreina. Eru launaákvarðanir til að mynda ekki teknar nema tryggt sé að umsamdar launahækkanir ógni ekki samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Þar er deilt um hvort 1-2% árlegar launahækkanir ógni samkeppnisstöðunni – hér á landi eru margfalt hærri launakröfur ekki einu sinni settar í slíkt samhengi. Sem dæmi er ferðaþjónustan vinnuaflsfrek atvinnugrein og launakostnaður því íþyngjandi í rekstri slíkra fyrirtækja. Hvort laun hækka um 2% eða 10% hefur því mikið að segja um áframhaldandi rekstur þeirra. Framundan eru kjaraviðræður og vonandi að launakröfur verði að þessu sinni mátaðar við svigrúm atvinnulífsins áður en til undirritunar kemur.

Það er mikilvægt að hafa í huga að við erum í öfundsverðri stöðu um þessar mundir og til mikils að vinna takist okkur að varðveita þá stöðu. Ef það á að vera raunhæft markmið að útflutningsgreinar beri áfram uppi vöxt íslensks hagkerfis þá verða hér að vera samkeppnishæf skilyrði. Hóflegar launahækkanir, hófleg skattbyrði og regluverk sem styður við nýsköpun og fjárfestingu skipta þar miklu máli. Gleymum því ekki að Íslendingar eru álíka margir og íbúar Árhúsa í Danmörku.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í tímariti Félags viðskipta- og hagfræðinga