Verðbólguvæntingar stjórnenda lækka mikið

Stjórnendur í atvinnulífinu vænta þess að verðbólga næstu 12 mánaða verði 3,2%. Þetta er ein af niðurstöðum nýrrar könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í síðasta mánuði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Verðbólguvæntingarnar eru mun lægri en fyrr á þessu ári, og á því síðasta, þegar stjórnendur bjuggust við 4-4,5% verðbólgu.

Væntingar um minni verðbólgu er mikilvægur áfangi í átt að verðstöðugleika og stuðlar að því að vextir geti lækkað. Lækkun verðbólguvæntinga skýrist af styrkingu krónunnar og hjaðnandi verðbólgu undanfarið. Verðbólgan er nú rúmlega 3% og hefur hjaðnað úr 4-6% á síðasta ári. Lækkun verðbólguvæntinga stjórnenda eykur bjartsýni um að verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%, sé innan seilingar.

Háar verðbólguvæntingar hafa tilhneigingu til að verða að veruleika þar sem samningar á milli aðila um verð á vöru og þjónustu fram í tímann fara meðal annars eftir því hvernig vænst er að verðlag þróist.

Verðbólguvæntingar stjórnenda

Um könnunina 

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.


Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 10.-30. maí 2013 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 437 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 273 þannig að svarhlutfall var 62,5%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.