Verðbólgan enn undir markmiði

Í síðasta mánuði urðu söguleg tímamót þegar verðbólgan fór undir neðri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (1%) í fyrsta skipti frá upptöku verðbólgumarkmiðs. Nú í janúar er verðbólga síðustu tólf mánaða óbreytt og því enn undir neðri vikmörkum.

Síðustu þrjá mánuði hefur verðlag lækkað. Frá nóvember hefur vísitala neysluverðs lækkað um 0,9% en það jafngildir 3,6% verðlækkun á ársgrundvelli.

undefined

Um langa hríð hefur verðbólga verið mun meiri á Íslandi en gengur og gerist í nágrannaríkjum. Skarpur viðsnúningur síðustu misseri hefur þó breytt þeirri mynd og er Ísland á svipuðum slóðum og helstu viðskiptalönd.

undefined

Svigrúm til að slaka á raunaðhaldinu eða er óvissan of mikil?

Því fer þó fjarri að endanlegur sigur hafi unnist í baráttunni við verðbólguna því mestu skiptir að hún sé stöðug um lengri tíma þannig að áhrif hennar á efnahagslegar raunstærðir séu sem minnst. Verðbólguvæntingar stjórnenda og almennings gefa þó tilefni til hóflegrar bjartsýni, en verðbólguvæntingar til langs tíma mælast í fyrsta skipti undir verðbólgumarkmiði.

Þrátt fyrir litla verðbólgu eru raunvextir margfalt hærri en í öðrum ríkjum. Raunvextir hafa verið mjög háir á Íslandi í aldarfjórðung enda hafa hagsveiflur verið miklar og ofþensla gjarnan ríkt í efnahagslífinu.

Nýtilkominn verðstöðugleiki hefur gefið Seðlabankanum tilefni til að lækka stýrivexti á tveimur síðustu vaxtaákvarðanafundum en þrátt fyrir það er raunaðhaldið enn mikið og umfram það sem samræmist því raunvaxtastigi sem má telja eðlilegt miðað við stöðu hagkerfisins.

Einblíni Seðlabankinn einungis á núverandi verðbólgu og verðbólguvæntingar má ætla að full innistæða sé fyrir áframhaldandi vaxtalækkunum. Seðlabankinn lítur þó einnig til kjarasamninga og stöðunnar á vinnumarkaði við vaxtaákvarðanir sínar. Stefni í launahækkanir umfram það svigrúm sem bankinn telur innistæðu fyrir er allt eins líklegt að hann telji sig knúinn til að viðhalda miklu aðhaldi til að verja trúverðugleika peningastefnunnar, sem á mælikvarða verðlags og verðbólguvæntinga hefur sjaldan verið eins mikið.

undefined