Fréttir - 

01. september 2014

Verð innfluttrar neysluvöru hækkar minna en gengi krónunnar segir til um

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verð innfluttrar neysluvöru hækkar minna en gengi krónunnar segir til um

Styrking gengis krónunnar skilar sér mishratt í verði innfluttrar neysluvöru eftir vöruflokkum. Í sumum tilvikum skila gengisbreytingar sér hratt, t.d. í beinum innflutningi smásala á dagvörum þar sem vöruvelta er mikil. Í öðrum tilvikum, þar sem veltan er hægari, skila breytingarnar sér á lengri tíma.

Styrking gengis krónunnar skilar sér mishratt í verði innfluttrar neysluvöru eftir vöruflokkum. Í sumum tilvikum skila gengisbreytingar sér hratt, t.d. í beinum innflutningi smásala á dagvörum þar sem vöruvelta er mikil. Í öðrum tilvikum, þar sem veltan er hægari, skila breytingarnar sér á lengri tíma.

Verslun á Íslandi er reglulega sökuð um að styrking gengis krónunnar skili sér seint og illa til neytenda í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Því sé hins vegar öfugt farið þegar gengi krónunnar veikist, þá sé verslunin fljót að hækka verð á innfluttum vörum. Slíkar staðhæfingar eru ekki í samræmi við gögn Hagstofunnar um verðþróun innfluttra neysluvara undanfarin ár. Málflutningur sem þessi byggist ennfremur á þeirri einföldun að einungis gengi krónunnar standi að baki verðmyndun innfluttra neysluvara. Litið er fram hjá öðrum mikilvægum þáttum, einkum innkaupsverði í erlendri mynt og innlendum kostnaði.

Heimsmarkaðsverð á vörum og samningar innflytjenda við erlenda seljendur skipta miklu máli og einnig verðbólga erlendis. Ef gengi krónunnar væri stöðugt þá skipti innflutningsverðið væntanlega mestu máli í verðmynduninni. Innlend kostnaðarþróun hefur einnig áhrif á verð innfluttra neysluvara. Laun hafa hækkað umfram innflutningsverð á undanförnum árum sem skapar þrýsting til hækkunar álagningar.

Á meðfylgjandi línuriti er gengisþróun krónunnar borin saman við verðþróun innfluttra vara, án áfengis og tóbaks, í vísitölu neysluverðs frá ársbyrjun 2008. Þar kemur skýrt fram að gengislækkun krónunnar 2008 skilaði sér einungis að hluta í hækkuðu vöruverði. Frá janúar 2008 til sama mánaðar 2009 hækkaði vísitala meðalgengis um 71% en verðvísitala innfluttra vara, án áfengis og tóbaks, um 30%. Verslunin tók þannig gengislækkunina á sig að miklu leyti og var í heild rekin með halla árin 2008 og 2009 samkvæmt úrvinnslu Hagstofunnar á ársreikningum fyrirtækja. Verslunin náði síðan smám saman að rétta sinn hlut nokkuð á árunum 2010-2013.

Gengisþróun og innflutningsverð 2008-2014.jpg

Þegar litið er á allt tímabilið frá ársbyrjun 2008 til ágúst 2014 kemur í ljós að vísitala meðalgengis hækkaði um 66,4% en verðvísitala innfluttra vara, án áfengis og tóbaks, um 62,3%. Hækkun verðs innfluttra vara var þannig minni en vísitala meðalgengis þrátt fyrir erlenda verðbólgu og miklar innlendar kostnaðarhækkanir. Af því er ljóst að verslunin hefur ekki náð sömu stöðu og í ársbyrjun 2008.

Í ágúst 2010 og ágúst 2014 var vísitala meðalgengis svipuð en verðvísitala innfluttra vara, án áfengis og tóbaks, hækkaði á þessu tímabili um 7,3%. Það samsvarar 1,8% hækkun á ári að jafnaði sem lætur nærri að vera í samræmi við alþjóðlega verðbólgu. Til samanburðar þá hækkaði vísitala neysluverðs að jafnaði um 3,9% árlega á þessu tímabili og launavísitala Hagstofunnar um 6,3%.

Samtök atvinnulífsins