Efnahagsmál - 

01. Desember 2005

Veldur verðbólga fólki litlum áhyggjum? (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Veldur verðbólga fólki litlum áhyggjum? (1)

Um 37% landsmanna hafa litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu, skv. niðurstöðu úr spurningavagni IMG Gallup. Samtök atvinnulífsins fengu á dögunum IMG Gallup til að spyrja í spurningavagni sínum hvort mikil verðbólga ylli svarendum miklum eða litlum áhyggjum. 54% sögðu mikla verðbólgu valda þeim mjög eða frekar miklum áhyggum, 9% svöruðuð bæði og eða í meðallagi en sem fyrr segir sögðust 37% hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu. Áhyggjurnar eru áberandi minnstar meðal yngstu svarendanna, 16-24 ára, en 59% þess hóps hafa litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu.

Um 37% landsmanna hafa litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu, skv. niðurstöðu úr spurningavagni IMG Gallup. Samtök atvinnulífsins fengu á dögunum IMG Gallup til að spyrja í spurningavagni sínum hvort mikil verðbólga ylli svarendum miklum eða litlum áhyggjum. 54% sögðu mikla verðbólgu valda þeim mjög eða frekar miklum áhyggum, 9% svöruðuð bæði og eða í meðallagi en sem fyrr segir sögðust 37% hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu. Áhyggjurnar eru áberandi minnstar meðal yngstu svarendanna, 16-24 ára, en 59% þess hóps hafa litlar áhyggjur af mikilli verðbólgu.

des Verðbólguáhyggjur

Verðbólguárin gleymd
Viðhorf yngsta aldurshópsins er skiljanlegt. Þótt verðbólga undanfarinn einn og hálfan áratug hafi verið sveiflukennd og stundum meiri en í helstu viðskiptalöndunum, hefur hún verið mun lægri en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Launahækkanir hafa því skilað sér í samfelldri og mikilli aukningu kaupmáttar undanfarinn rúman áratug. Þessi kynslóð, a.m.k. eldri hluti hennar, hefur þar af leiðandi aldrei kynnst því að endar nái ekki saman vegna þess að vöruverð hafi hækkað umfram laun eða að greiðslubyrði lána hafi þyngst umtalsvert vegna verðbólgu.

Sagan kennir þó að þessari reynslu er óvarlegt að treysta því undanfarna áratugi hefur kaupmáttur launa vaxið og minnkað á víxl vegna sveiflukenndrar verðbólgu. Mörg dæmi eru um misgengi á milli hækkunar verðlags og launa með þeim afleiðingum að kaupmáttur launa hefur hrapað. Kaupmáttur féll t.d. um tæplega 20% í verðbólgubálinu 1982-84 og sú saga endurtók sig í efnahagslægðinni 1988-90 þegar kaupmáttur féll um 13%, en síðasta árið sem kaupmáttur minnkaði var árið 1994.

Smellið á myndina

Kaupmáttur launa nóv lítil

Þeim sem komnir eru á miðjan aldur er líklega flestum í fersku minni að greiðslubyrði lána  þyngdist mikið á árunum sem kaupmáttur launa hrapaði. Það vekur þess vegna athygli að áhyggjur af verðbólgu séu ekki meira afgerandi en raun ber vitni hjá miðaldra og eldra fólki. Hugsanlega má draga þá ályktun að almenningur álíti að efnahagslífið og umgjörð þess hafi tekið það miklum framförum að ekki sé ástæða til þess að óttast mikla verðbólgu og að almenningur treysti því að stjórnvöld muni grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að tryggja að verðbólga fari ekki úr böndum. 

Önnur ástæða þess að almenningur virðist ekki óttast mikla verðbólgu svo mjög  er sá háttur sem almennt viðgengst í lánasamningum, að dreifa auknum skuldum vegna verðbólgu á allan lánstíma verðtryggðra lána, bæði jafngreiðslulána og lána með jöfnum afborgunum sem dregur verulega úr skynjun fólks á neikvæðum áhrifum verðbólgu. Ef skuldir heimilanna, t.d. húsnæðislán, væru óverðtryggðar með jöfnum afborgunum og á breytilegum vöxtum þá myndi aukin verðbólga leiða til hærri vaxta og tilfinnanlegri þyngingar á greiðslubyrði.  Aðferðir við verðtryggingu valda því hins vegar að greiðslubyrði langra lána þyngist óverulega þótt verðbólga fari vaxandi þar sem áhrif hennar  koma fyrst og fremst fram í hækkun á höfuðstól lána en aðeins að litlu leyti í hækkun vaxtagreiðslna.

Verðbólga er skaðvaldur sem dregur úr skilvirkni markaða og hefur til lengdar neikvæð áhrif á hagvöxt og lífskjör. Í ljósi verðbólgusögu Íslands og mikillar verðbólguhneigðar í efnahagslífinu eru hinar  tiltölulega litlu áhyggjur landsmanna af verðbólgu áhyggjuefni, einkum þeirrar kynslóðar sem er að hasla sér völl í atvinnulífinu.  Niðurstöðurnar gætu verið vísbending um að umburðarlyndi gagnvart verðbólgu, t.d. í formi óraunhæfra kostnaðarhækkana í kjarasamningum sem að lokum er velt út í verðlag, muni áfram verða.

Samtök atvinnulífsins